Björguðu 57 börnum frá smyglurum

Börnin fundust við hefðbundið vegaeftirlit í nágrenni Rustburg, en talið …
Börnin fundust við hefðbundið vegaeftirlit í nágrenni Rustburg, en talið er að til hafi staðið að selja börnin í vændi eða sem ódýrt vinnuafl. AFP

Lögregluyfirvöld í Suður-Afríku tilkynntu í gær að lögregla hefði bjargað 57 börnum sem smyglað hafði verið inn til landsins aftan í vöruflutningabíl frá Malaví.

Börnin uppgötvuðust aftan í bílnum við hefðbundið eftirlit á eftirlitsstöð utan við bæinn Rustenburg, sem er um 100 km norðvestur af Jóhannesarborg.

„Við leit í bílnum fundust 57 óskráð börn aftur í lokuðu og gluggalausu rými,“ sagði í yfirlýsingu lögreglu.

AFP-fréttastofan hefur eftir Mashadi Sepele, talsmanni lögreglunnar, að ekki sé enn vitað hve gömul börnin eru, en talið er þau yngstu séu ellefu ára.

„Við erum 100% örugg um að þetta eru allt börn,“ sagði Sepele og bætti við að 18 stúlkur hefðu verið í bílnum og 39 drengir.

Þrír menn, m.a. bílstjórinn, voru handteknir en lögregla telur að það hafi átt að selja börnin ýmist í vændi eða sem ódýrt vinnuafl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert