Eistar fylla í skarðið fyrir Breta

Eistar taka við forsæti sex mánuðum á undan áætlun, vegna …
Eistar taka við forsæti sex mánuðum á undan áætlun, vegna ákvörðunar Breta að ganga úr Evrópusambandinu. AFP

Eistland tekur við forsæti ráðherraráðs Evrópusambandsins í júlí 2017 í stað Bretlands, en forsætisráðherrann Theresa May tilkynnti í kjölfar þeirrar ákvörðunar bresku þjóðarinnar að ganga úr Evrópusambandinu að ríkið myndi ekki setjast við stjórnvölinn úr því sem komið væri.

Fulltrúar aðildarríkja sambandsins komust að samkomulagi 20. júlí sl. um að hoppa einfaldlega yfir Bretland í röðinni, en aðildarríkin skiptast á um að leiða ráðið. Hvert ríki situr í forsæti sex mánuði í senn.

Í yfirlýsingu sem gefin var út í dag sagði að samkomulagið hefði verið formlega samþykkt. Þá hefur verið ákveðið að Króatía, nýjasta aðildarríki Evrópusambandsins, taki forsæti fyrri hluta árs 2020.

Slóvakía situr nú í forsæti en Malta tekur við í byrjun næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert