Hafði hótað að drepa fatlaða

Frá aðgerðum lögreglu í nótt.
Frá aðgerðum lögreglu í nótt. AFP

Maður sem drap nítján á heimili fyrir fólk með andleg veikindi í Japan í gærkvöldi hafði hótað árás gegn fötluðum í febrúar. Er þetta versta fjöldamorð í landinu í áratugi.

Lögregla hefur handtekið mann í borginni Sagamihara en hann er sagður hafa áður unnið á heimilinu. Fór hann sjálfur á lögreglustöð í borginni og viðurkenndi að hann væri árásarmaðurinn. Sagði hann lögreglu að sögn fjölmiðla að hann hafi viljað að fatlað fólk „myndi hverfa“.

Sá grunaði hefur verið nefndur í fjölmiðlum sem hinn 26 ára gamli Satoshi Uematsu. Að sögn lögreglu sendi hann bréf til stjórnmálamanna í febrúar þar sem hann hótaði að drepa mörg hundruð fatlaða.

Starfsfólk á Tsukui Yamayuri-en heimilinu, sem er í um 50 km fjarlægð frá Tókýó, hringdi á lögreglu um klukkan 2:30 að staðartíma í nótt vegna manns með hníf inni í byggingunni. Á hann að hafa brotið glugga til þess að komast inn og byrjaði hann síðan að ráðast á fólk.

Um 150 vistmenn voru á heimilinu þegar árásin hófst og átta starfsmenn. Fórnarlömbin eru á aldrinum 19–70 ára. Þar að auki særðust 25, þar af 20 alvarlega.

Svo virðist sem árásarmaðurinn hafi yfirgefið bygginguna sjálfur og keyrt þaðan á lögreglustöðina. Var hann vopnaður eldhúshnífum meðal annars þegar hann kom þangað. 

Fyrri frétt mbl.is: 15 myrt­ir í árás á heim­ili fyr­ir fatlaða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert