Handtóku hershöfðingja sem þjóna með NATO

Hershöfðinginn Mehmet Cahit Bakir, t.h. hefur nú verið handtekinn og …
Hershöfðinginn Mehmet Cahit Bakir, t.h. hefur nú verið handtekinn og sendur aftur til Tyrklands vegna gruns um aðild að valdaráninu. AFP

Stjórnvöld í Tyrkland hafa haldið áfram að herða aðgerðir sínar gegn þeim sem þau telja tengjast valdaránstilraun sem gerð var í landinu 15. júlí sl. og greindi AFP-fréttastofan frá því að háttsettir tyrkneskir hershöfðingjar sem þjóna í Afganistan hefðu verið hnepptir í varðhald, auk þekktra fjölmiðlamanna.

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa einnig tilkynnt að Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti muni funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í næsta mánuði. Töluvert frost hefur verið í samskiptum ríkjanna undanfarna mánuði og telja sérfræðingar þetta til merkis um breyttar áherslur Tyrkja í milliríkjasamskiptum.

Tveir háttsettir hershöfðingjar sem þjóna með herliði NATO í Afganistan voru hnepptir í varðhald á flugvellinum í Dubai vegna gruns um að þeir hefðu átt þátt í valdaránstilrauninni, að því er AFP hefur eftir embættismanni sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Hershöfðingjarnir Mehmet Cahit Bakir, sem fór fyrir herafla Tyrkja í Afganistan, og Sener Topuc stórfylkisforingi voru handteknir með aðstoð frá yfirvöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hafa nú verið fluttir til Tyrklands. Talsmaður NATO í Afganistan neitaði að tjá sig um málið að öðru leyti en því að Tyrkir tækju áfram þátt í aðgerðum NATO í landinu.

Breytingar á hernum tilkynntar á fimmtudag

Um 13.000 manns hafa verið hnepptir í varðhald og rúmlega 9.000 hafa verið dæmdir í gæsluvarðhald í kjölfar valdaránstilraunarinnar, sem stjórnvöld í Tyrklandi telja klerkinn Fethullah Gulen, sem dvalið hefur í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum frá 1999, bera ábyrgð á. Gulen hefur hafnað öllum slíkum ásökunum.

Tyrkneska fréttastofan Anadolu segir rúmlega 47.000 ríkisstarfsmenn hafa misst vinnuna frá því valdaránstilraunin var gerð, þar á meðal eru tæplega 43.000 manns sem störfuðu innan menntakerfisins.  

Búist er við að tilkynnt verði um verulegar breytingar á skipulagi tyrkneska hersins nk. fimmtudag þegar æðsta herráð landsins kemur saman. 143 hershöfðingjar og rúmlega 3.000 hermenn hafa verið handteknir vegna gruns um að eiga aðild að valdaráninu og má því, að mati AFP, telja ljóst að endurskipa þurfi í nokkrar stjórnunarstöður.

Tyrkneska ríkisstjórnin segir harðra aðgerða þörf til að hreinsa út þau ítök sem Gulen hafi innan tyrkneskra stofnana, en stjórnvöld segja hann hafa skapað ríki innan tyrkneska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert