„Hillary Clinton verður frábær forseti“

Bernie Sanders hvatti demókrata til þess að fylkja sér um frambjóðanda flokksins, Hillary Clinton, í forsetakosningunum í nóvember, á landsfundi flokksins sem hófst í gær.

Sanders hlaut þriggja mínútna standandi lófaklapp þegar hann kom upp á svið á landsfundinum í Philadelphia í gær.

„Hillary Clinton verður að vera næsti forseti Bandaríkjanna,“ sagði Sanders við mikinn fögnuð.

Forsetafrúin Michelle Obama hélt einnig kraftmikla ræðu þar sem hún gagnrýndi frambjóðanda repúblikana, Donald Trump, harðlega.

„Aldrei leyfa einhverjum að segja þér að þetta land sé ekki frábært, að einhvern veginn þurfum við að gera það frábært aftur,“ sagði hún og vísaði til slagorðs kosningabaráttu Trumps sem er „Gerum Ameríku frábæra aftur“ eða „Make America Great Again“.

„Því einmitt núna er þetta besta land í heimi,“ sagði Obama.

Klappað var fyrir Sanders í þrjár mínútur þegar hann gekk …
Klappað var fyrir Sanders í þrjár mínútur þegar hann gekk upp á svið. AFP

Fyrr um kvöldið höfðu stuðningsmenn Sanders baulað í hvert skipti sem minnst var á Clinton en hún tekur við formlegri útnefningu flokksins á fimmtudaginn.

Sumir þeirra táruðust yfir ræðu Sanders á meðan aðrir voru með límband fyrir munninum sem á stóð „Þögguð niður“ eða „Silenced“. Sanders sagði m.a. að á meðan Trump móðgaði hvern hópinn á eftir öðrum skildi Clinton að fjölbreytni þjóðarinnar væri einn mesti styrkur hennar.

„Aldrei leyfa ein­hverj­um að segja þér að þetta land sé …
„Aldrei leyfa ein­hverj­um að segja þér að þetta land sé ekki frá­bært, að ein­hvern veg­inn þurf­um við að gera það frá­bært aft­ur,“ sagði Michelle Obama og vísaði til slag­orðs kosn­inga­bar­áttu Trump sem er „Ger­um Am­er­íku frá­bæra aft­ur“ eða „Make America Great Again“. AFP

„Ef þú heldur að þessar kosningar séu ekki mikilvægar, ef þú heldur að þú getir sleppt þeim, hugsaðu aðeins um hæstaréttardómarana sem Donald Trump myndi tilnefna og hvað það myndi þýða fyrir borgaraleg réttindi, jafnrétti og framtíð landsins,“ sagði Sanders.

Áheyrendur hófu að trufla landsfundinn strax í upphafi þegar bænastund fór fram. Hrópuðu þeir stöðugt „Bernie“ og gerðu grín að ræðum annarra.

Varð það til þess að Sanders sendi tölvupóst á stuðningsmenn sína og hvatti þá til þess að hætta baulinu og sagði að það myndi skaða trúverðugleika stuðningsmannanna.

Helsta ástæðan fyrir reiði stuðningsmanna Sanders er líklega það sem kom í ljós þegar Wikileaks lak þúsundum tölvupósta stjórnarmanna flokksins. Þar má m.a. sjá tilraunir þeirra til þess að grafa undan kosningabaráttu Sanders.

Lekinn varð m.a. til þess að Debbie Wasserman Schultz, formaður flokksstjórnarinnar, sagði af sér á sunnudaginn.

Sanders hefur sagt að lekinn eigi ekki að verða til þess að demókratar hætti við að kjósa Clinton. „Hillary Clinton verður frábær forseti og ég er stoltur af að standa með henni hér í kvöld,“ sagði hann áður en hann gekk af sviðinu.

Um 50.000 manns taka þátt í landsfundinum en honum lýkur á fimmtudaginn. Í dag mun fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og eiginmaður Clinton, Bill Clinton, halda ræðu ásamt móður Trayvons Martins, Sybrinu Fulton. Martin var myrtur af George Zimmerman árið 2012. Málið vakti mikla reiði og umræðu um kynþáttafordóma og byssulöggjöfina í landinu. 

Umfjöllun BBC.

Stuðningsmaður Bernie Sanders með límband fyrir munninum.
Stuðningsmaður Bernie Sanders með límband fyrir munninum. AFP
Sanders hvatti stuðningsmenn sína til þess að kjósa Clinton.
Sanders hvatti stuðningsmenn sína til þess að kjósa Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert