„Hefur þokkann og þorið“

Michelle Obama þykir mikill ræðuskörungur.
Michelle Obama þykir mikill ræðuskörungur. AFP

Fjölmörg tár féllu undir ræðu Michelle Obama á landsþingi demókrata í Philadelphiu í nótt. David Smith hjá Guardian lýsir því sem svo að Obama hafi gert meira til að sameina og kveikja baráttuelda flokksins en nokkur ríkisstjóri eða þingmaður sem mælt hefur á landsþinginu.

Obama hafði þegar átt hlut í umtöluðustu ræðu kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum til þessa en sú var flutt af Melaniu Trump, sem nýtti sér ræðu forsetafrúarinnar frá árinu 2008 á landsþingi Repúblíkanaflokksins eins og frægt er orðið. Hins vegar er víst að ræða Obama verður ein sú umtalaðasta sökum skilaboðanna sjálfra en ekki hvaðan þau komu.

Forsetafrúin vísaði meðal annars í ræðu Clinton frá 2008 þegar hún lýsti sig sigraða gagnvart Barack Obama í baráttunni um útnefningu demókrata til forseta. „Við gátum ekki mölvað hæsta og harðasta glerþakið í þetta skipti,“ sagði Clinton við það tilefni.

Clinton „hefur þann þokka og þor sem þarf til að koma alltaf aftur og bæta sprungum í hæsta og harðasta glerþakið þar til hún brýst að lokum í gegn og lyftir okkur öllum upp með sér“, sagði Obama. „Það er saga þessa lands. Sagan sem hefur fært mig á þetta svið í kvöld.“

Obama minntist ekki á Donald Trump á nafn en vísaði …
Obama minntist ekki á Donald Trump á nafn en vísaði þó reglulega í hann. AFP

Vaknar í húsi byggðu af þrælum

Obama sagði kosningu fyrsta svarta forsetans og nú hugsanlega fyrstu konunnar í embættið bera vitni um hin sönnu Bandaríki og stangast á við allt það sem Trump stæði fyrir.

„Sögu kynslóða sem hafa fundið svipuhögg ánauðar, skömm þrælkunar, sviða aðskilnaðar en héldu áfram að berjast og gera það sem þurfti að gera svo í dag vakna ég á hverjum morgni í húsi byggðu af þrælum og horfi á dætur mínar, tvær fallegar, gáfaðar, svartar ungar konur, leika við hundana sína á lóð Hvíta hússins.“

Rödd hennar brast þegar hún hélt áfram: „Og vegna Hillary Clinton taka dætur mínar og allir synir okkar og dætur það sem gefið að kona geti orðið forseti Bandaríkjanna.“

Því næst sneri hún upp á slagorð Donalds Trumps: „Make America Great Again.“

„Ekki láta neinn segja ykkur nokkurn tíma að þetta land sé ekki frábært, að við þurfum einhvern veginn að gera það stórkostlegt að nýju af því að akkúrat núna er það stórkostlegasta land heimsins.“

„Getum ekki hallað okkur aftur“

Umskiptin féllu vel í mannfjöldann, sem fagnaði ákaft og víða sáust fjólublá veggspjöld á lofti með nafninu Michelle. Hún vísaði aftur til dætra sinna og sagði að í því sem þær færu út í heiminn vildi hún að þær hefðu leiðtoga sem væri virði þeirra fyrirheita sem unga kynslóðin gæfi, sem gæti látið ástina, vonina og stóru draumana sem foreldrar eiga fyrir börnin sín lýsa sér leið. Hún hvatti demókrata til að bretta upp ermar og fanga aftur þann anda sem ríkti í síðustu tveimur kosningaherferðum.

„Í þessum kosningum getum við ekki hallað okkur aftur og vonað að allt fari á besta veg. Við höfum ekki efni á að vera þreytt eða pirruð eða tortryggin. Nei, hlustið á mig: Frá því núna og fram í nóvember þurfum við að gera það sem við gerðum fyrir átta árum og fjórum árum.“

Fulltrúar á þinginu veifuðu spjöldum með nafni Obama á meðan …
Fulltrúar á þinginu veifuðu spjöldum með nafni Obama á meðan á ræðunni stóð. AFP

„Hvað höfum við gert?“

Obama ræddi hvernig dætur þeirra hjóna uxu úr grasi við óvenjulegar aðstæður og sagðist aldrei myndu gleyma vetrarmorgninum þar sem þau fylgdust með þeim, sjö og tíu ára gömlum, hoppa upp í stóra jeppa umkringdar stórum mönnum vopnuðum byssum.

„Og ég sá litlu andlitin þeirra, klesst upp að glugganum, og það eina sem ég gat hugsað var: „Hvað höfum við gert?“ Því á þessu augnabliki áttaði ég mig á því að tími okkar í Hvíta húsinu myndi mynda grunninn að því hverjar þær yrðu og það hversu vel við héldum utan um þessa upplifun gæti sannlega styrkt þær eða haldið aftur af þeim. Það er það sem Barack og ég hugsum um á hverjum degi þar sem við reynum að leiðbeina og vernda stúlkurnar okkar gegn áskorunum þessa óvenjulega lífs í kastljósinu.

Hvernig við hvetjum þær til að hunsa þá sem draga í efa ríkisborgararétt eða trú föður síns. Hvernig við stöndum staðföst á því að hatursfull orðræða sem þær heyra frá opinberum aðilum í sjónvarpinu standi ekki fyrir sannan anda þessa lands. Hvernig við útskýrum að þegar einhver er illgjarn eða hegðar sér eins og eineltisseggur fer maður ekki á þeirra stig. Nei, okkar mottó er: „Þegar þeir leggjast lágt förum við hátt.“

Ekki bara 140 stafabil

Obama sagðist dást að því við Clinton að hún gæfi aldrei eftir þótt hún væri undir álagi eða þrýstingi. Hún hefði aldrei gefist upp á neinu á allri sinni lífsleið og það gerði hana að fyrirmynd fyrir börn þjóðarinnar.

„Ég vil einhvern sem sannað hefur styrk sinn til að þrauka. Einhvern sem þekkir þetta starf og tekur það alvarlega. Einhvern sem skilur að þau mál sem forsetinn þarf að eiga við eru ekki svört og hvít og er ekki hægt að stytta niður í 140 stafabil.“

Línan sem gerði lítið úr tístum Trumps fékk skarann til að fagna ákaft að nýju.

„Því þegar þú ert með dulkóða fyrir kjarnorkuvopn við fingurgómana og herinn undir þinni stjórn geturðu ekki tekið skyndiákvarðanir. Þú getur ekki verið hörundsár eða með tilhneigingu til að bregðast við í reiði. Þú þarft að vera stöðugur og yfirvegaður og vel upplýstur.“

Ræðu Michelle Obama í heild sinni má heyra hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert