Ölvuðu flugmennirnir lausir úr haldi

Öryggisbíllinn sem ók flugmennina úr réttarsal í Paisley í Skotlandi.
Öryggisbíllinn sem ók flugmennina úr réttarsal í Paisley í Skotlandi. AFP

Tveir kanadískir flugmenn sem voru kærðir fyrir að hafa verið drukknir og hagað sér ósæmilega skömmu áður en þeir áttu að fljúga farþegaþotu frá Glasgow til Toronto hafa verið látnir lausir gegn tryggingu.

Jean-Francois Perreault, 39 ára, og Imran Zafar Syed, 37 ára, voru handteknir 18. júlí þegar þeir voru að undirbúa að fljúga þotunni, sem er af gerðinni Airbus A310 og tekur allt að 250 farþega. Daginn eftir komu mennirnir fyrir rétt.

Frétt mbl.is: Ölvaðir flugmenn handteknir

Þeir voru látnir lausir með því skilyrði að þeir létu vegabréfin sín af hendi.

Í yfirlýsingu sem flugfélag þeirra sendi frá sér í síðustu viku kom fram að mönnunum hefði verið vísað úr starfi meðan á innanhússrannsókn stæði á máli þeirra.

„Kanadískar og evrópskar reglugerðir varðandi áfengisneyslu eru mjög strangar,“ sagði forseti flugfélagsins, Jean-Fracois Lemay. „Okkar eigin reglur eru jafnvel strangari og við líðum ekki að þær séu brotnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert