Röktu ránstólin til seljenda

Þjófarnir létu meðal annars til skarar skríða hjá HSBC í …
Þjófarnir létu meðal annars til skarar skríða hjá HSBC í Brooklyn. EPA

Þrír New York-búar voru handteknir í dag og ákærðir fyrir að hafa brotið sér leið inn í bankahvelfingar með logsuðutækjum. Höfðu þeir á brott með sér fimm milljónir dala, en ránið þykir áþekkt því sem kemur fyrir í kvikmyndinni Heat með Robert de Niro í aðalhlutverki.

Þjófarnir létu til skarar skríða í HSBC í Brooklyn í apríl sl. og Maspeth Federal Savings Bank í Queens í maí. Sem fyrr segir komust þeir inn í byggingarnar og hvelfingarnar með aðstoð logsuðutækja og í Queens höfðu þeir meira að segja fyrir því að byggja kofa á þaki bankans til að geta athafnað sig í friði.

Hópurinn braust inn í öryggishólf og hafði með sér fjármuni, demanta, skart og annað verðmæti að andvirði samtals fimm milljónir dala.

Ránin þykja hafa verið vel skipulögð en lögregla komst um síðir á slóð þjófanna með því að rekja viðinn sem þeir notuðu til að reisa kofann og logsuðutækin til seljenda.

Michael Mazzara, 44 ára, Charles Kerrigan, 40 ára, og Anthony Mascuzzio, 36 ára, eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi ef þeir verða fundnir sekir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert