Vildi að stjórnvöld útrýmdu fötluðum

Mikill viðbúnaður var við dvalarheimilið í dag, þar sem Satoshi …
Mikill viðbúnaður var við dvalarheimilið í dag, þar sem Satoshi Uematsu myrti 19 íbúa í nótt. AFP

Að sögn nágranna Satoshis Uematsus var hann kurteis, brosmildur og hjálpsamur, og því kom þeim verulega á óvart þegar þeir heyrðu að hann hefði myrt 19 íbúa dvalarheimilis fyrir fatlaða. Í ljós hefur komið að drifkraftur Uematsus var djúpstætt hatur á fötluðum en þegar hann gaf sig fram við lögreglu sagði hann æskilegt að fatlað fólk hyrfi.

Hinn 26 ára Uematsu lét til skarar skríða síðastliðna nótt, á Tsukui Yamayuri En-dvalarheimilinu, þar sem hann komst inn með því að brjóta glugga með hamri. Þegar hann hafði lokið af sér lágu 19 í valnum; 10 konur og 9 menn, á aldrinum 19-70 ára. 25 særðust í árásinni.

Frétt mbl.is: Hafði hótað að drepa fatlaða

Um er að ræða versta fjöldamorð í sögu Japans frá seinni heimsstyrjöld.

Uematsu gaf sig fram á nálægri lögreglustöð. Í bifreið hans fannst taska sem innihélt hnífa og önnur eggvopn. Að sögn vitna voru sæti bifreiðarinnar þakin blóði.

Fórnarlömbin voru stungin til bana á meðan þau sváfu, mörg voru skorin á háls.

Frétt mbl.is: 15 myrtir í árás á heimili fyrir fatlaða

Satoshi Uematsu. Myndin er tekin af mirror.co.uk.
Satoshi Uematsu. Myndin er tekin af mirror.co.uk. Ljósmynd/Facebook

Fregnir herma að Uematsu, sem er fyrrverandi starfsmaður dvalarheimilisins, hafi verið þeirrar skoðunar að réttast væri að útrýma fötluðum með „líknardauða“. Að sögn Akihiros Hasegawa, nágranna hans, gaf hegðun hans hins vegar ekki til kynna að hann ætti það til í sér að ráðast gegn berskjölduðustu einstaklingum samfélagsins.

Að sögn yfirvalda var Uematsu lagður inn á sjúkrahús í febrúar sl. vegna bréfs sem hann reyndi að koma í hendur forseta neðri deildar japanska þingsins. Í bréfinu sagði Uematsu að stjórnvöld ættu að heimila líknardráp á fötluðum, sagðist reiðubúinn til að grípa sjálfur til slíkra ráðstafana, og útlistaði hvernig hann myndi fara að.

Sagðist hann telja sig geta útrýmt 470 einstaklingum með því að leggja til atlögu á tveimur stöðum á næturvakt, þegar mönnun væri í lágmarki.

Uematsu var útskrifaður í mars sl., eftir að læknir mat ástand hans hafa batnað.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert