Vill ekki herða hryðjuverkalöggjöfina

Erkibiskupinn af Rúðuborg og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu í dag …
Erkibiskupinn af Rúðuborg og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu í dag í kjölfar árásar tveggja manna á kirkju þar sem þeir myrtu prestinn. AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti hafnaði í dag kröfum stjórnarandstöðunnar um að herða enn frekar franska hryðjuverkalöggjöf. Ráðist var inn í kirkju í Frakklandi í morgun og prestur myrtur, en komið hefur í ljós að annar árásarmannanna hafði áður hlotið dóm fyrir tengsl við hryðjuverkamenn.

„Það mun ekki gera baráttuna gegn hryðjuverkum skilvirkari að við drögum úr persónufrelsi okkar,“ sagði Hollande og bætti við að þær breytingar sem búið væri að gera á löggjöfinni gæfu yfirvöldum nægt rými til að bregðast við.

Nicolas Sarkozy, forveri Hollandes í embætti og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hafði áður hvatt til aukinna aðgerða. „Óvini okkar er ekkert heilagt, honum eru engin takmörk sett, hann hefur ekkert siðgæði,“ sagði Sarkozy og bað ríkisstjórnina að aðlaga löggjöfina að tillögum hægrimanna.

Stjórnarandstaðan vill að hægt verði að hneppa hvern þann sem grunaður er um að vera hallur undir skoðanir róttækra íslamista í varðhald og að komið verði í veg fyrir að dæmdir hryðjuverkamenn verði látnir lausir úr fangelsi þegar þeir hafa setið af sér dóm sinn, ef þeir eru enn taldir hættulegir.

Þá vill stjórnarandstaðan einnig að það verði talinn glæpur að hafa dvalið á „svæði hryðjuverkamanna“, þ.e. í Sýrlandi og Írak.

Samkvæmt núverandi löggjöf eru þeir sem snúa aftur til Frakklands eftir að hafa tekið þátt í heilögu stríði dæmdir fyrir þátttöku í hryðjuverkaaðgerðum.

„Ríkisstjórnin beitir öllum mögulegum ráðum til að bregðast við þessari ógn með liðsöfnun lögreglu og hers á skala sem ekki hefur áður sést í Frakklandi nútímans,“ sagði Hollande.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert