Barnier verður samningamaður ESB

Michel Barnier.
Michel Barnier. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, hefur skipað franska stjórnmálamanninn Michel Barnier aðalsamningamann sambandsins í fyrirhuguðum viðræðum við bresk stjórnvöld um úrsögn Bretlands úr sambandinu. Þetta tilkynnti Juncker í dag en Barnier er fyrrverandi fulltrúi í framkvæmdastjórninni.

„Ég er mjög ánægður með að vinur minn, Michel Barnier, hefur samþykkt að taka að sér þetta mikilvæga verkefni. Ég vildi fá reyndan stjórnmálamann í þetta erfiða verk,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Junckers samkvæmt frétt AFP. „Ég er viss um að hann mun standa undir væntingum og hjálpa okkur að koma á laggirnar nýju sambandi við Bretlandi eftir að landið yfirgefur Evrópusambandið.“

Breskir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í lok júni að yfirgefa Evrópusambandið með 52% gegn 48%. Bretland hefur verið aðili að sambandinu eða forverum þess frá árinu 1973.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert