Fann sofandi sel á klósettinu

Selurinn eftir að hann var fangaður.
Selurinn eftir að hann var fangaður. AFP

Konu, sem hugðist nota almenningssalerni við kirkjugarð í nágrenni borgarinnar Devonport í Tasmaníu í Ástralíu, brá í brún þegar hún rakst þar á sofandi sel á dögunum. Konunni þótti uppgötvunin ekki síður furðuleg í ljósi þess að töluverð vegalengd var í næsta vatn.

Haft er eftir Karinu Moore, sem á sæti í borgarstjórn Devonport, í frétt AFP að yfirvöld í borginni hafi fyrst talið að um grín væri að ræða þegar tilkynning barst um hinn 120 kílóa þunga sel. „Þetta er mjög dularfullt. Það er mjög óvenjulegt að finna sel svo langt inni í landi. Það er lítill lækur um hálfan kílómetra í burtu en dýrið hefði samt þurft að komast yfir fjölfarinn veg og nokkrar girðingar til þess að komast í krikjugarðinn.“

Selurinn var svæfður af dýraeftirlitsmönnum borgarinnar og síðan fluttur á næstu strönd þar sem honum var sleppt. Mikið er af sel í kringum Tasmaníu og þeir hafa áður þvælst nokkuð upp á land samkvæmt fréttinni. Meðal annars hafa þeir fundist í görðum fólks. „Núna getum við bætt almenningssalerni við listann,“ segir líffræðingurinn Rachel Alderman.

Selnum sleppt.
Selnum sleppt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert