Á fimmta tug látnir eftir sprengjuárás

Í það minnsta 44 eru látnir og 140 særðir eftir sjálfsmorðsprengjuárás í sýrlensku borginni Qamishli, nærri tyrknesku landamærunum.

Sprengingin er sú mannskæðasta í Qamishli síðan átökin í Sýrlandi brutust út, en borgin hefur reglulega verið skotmark sprengjuárása og hefur Ríki íslams lýst yfir ábyrgð á mörgum þeirra. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir sýrlenskum embættismönnum að árásarmaðurinn hafi sprengt sig í loft upp í flutningabíl. Upphaflega var talið að um tvær sprengingar væri að ræða, en sprengingin náði til eldsneytistanks í nágrenninu sem sprakk einnig.

Fréttaritari AFP segir sprenginguna hafa átt sér stað í nágrenni stjórnsýslubygginga Kúrda, þar á meðal varnarmálaráðuneytisins, en borgin er undir stjórn bæði sýrlenskra og kúrdískra stjórnvalda. Kúrdar eru í meirihluta í Qamishli og eru nokkur kúrdísk ráðuneyti þar til húsa.

Segist fréttaritarinn hafa séð hræðilega atburðarás eftir sprenginguna, þar sem borgarar hafi vafrað um alblóðugir í rústum sprengingarinnar. Fólk hafi verið í áfalli og börn öskrað á meðan öryggissveitir og aðrir borgarar unnu að því að flytja hina látnu og særðu úr eyðilögðum byggingum.

Fréttaveitan Amaq, sem hefur tengsl við Ríki íslams, segir sjálfsmorðssprengjumann hafa gert árás á sveitir Kúrda í Qamishli, án þess að nefna sérstaklega tengsl Ríkis íslams við árásina. 

Haft er eftir formanni mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights, Rami Abdel Rahman, að svæðið þar sem sprengingin varð sé talið öruggt svæði, sem þurfi að fara í gegnum mörg eftirlitshlið til að komast inn á.

Sjúkrahús í borginni eru yfirfull vegna sprengingarinnar og hafa stjórnvöld á svæðinu biðlað til íbúa að gefa blóð, í sýrlenska ríkissjónvarpinu.

Yfir 280.000 hafa fallið í átökunum í Sýrlandi frá því þau brutust út með mótmælum gegn stjórnvöldum 2011.

Sýrlendingar við árásarstaðinn í Qamishli í dag.
Sýrlendingar við árásarstaðinn í Qamishli í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert