Fjármálastjóri Páfagarðs grunaður um barnaníð

George Pell, fjármálastjóri Páfagarðs.
George Pell, fjármálastjóri Páfagarðs. AFP

Fjármálastjóri Páfagarðs, George Pell kardínáli, er til rannsóknar hjá áströlsku lögreglunni grunaður um barnaníð. Frá þessu greinir ríkisfjölmiðill landsins, ABC, en Pell hefur sagt ásakanirnar vera „algjörlega ósannar“.

Meint barnaníð Pells nær yfir tvo áratugi að því er fram kemur í frétt ABC um málið og koma ásakanirnar í sviðsljósið aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð þegar reynt var að hylma yfir barnaníð af hálfu kirkjunnar þjóna.

Frétt mbl.is: Níðingsverk í skjóli kirkjunnar

Þegar Pell var erkibiskup kaþólikka í Sydney árið 2002 var hann sakaður um barnaníð en var síðar hreinsaður af öllum sökum.

ABC segist hafa komist yfir átta lögregluskýrslur frá kvartendum, vitnum og fjölskyldumeðlimum sem lögregla styðst við við rannsókn á meintu barnaníði. Í skýrslunum kemur m.a. fram að Pell hafi snert tvo drengi með óviðeigandi hætti í sundlaug á áttunda áratug síðustu aldar.

Pell, sem er 75 ára, hafnaði öllum ásökunum í yfirlýsingu sem hann sendi ABC og sagði „ásakanir um að hann hefði beitt einhvern kynferðisofbeldi, á einhverjum stað, einhvern tímann á lífsleiðinni, algjörlega ósannar og hreinlega rangar“.

Talsmaður lögreglunnar í Viktoríu kaus að svara ekki spurningum AFP-fréttaveitunnar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert