Hefur ekkert með Rússa að gera

Donald Trump hefur oft tjáð sig um að honum muni …
Donald Trump hefur oft tjáð sig um að honum muni semja vel við Vladimír Pútin Rússlandsforseta. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, hafnaði því alfarið í dag að hann hefði einhver tengsl við Rússa. Starfsmenn kosningabaráttu Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, hafa haldið því fram að Rússar standi að baki gagnaþjófnaði á tölvupóstum frá mörgum forvígismönnum flokksins og að tilgangurinn sé að hjálpa Trump að vinna forsetakosningarnar í nóvember.

„Ég hef ekkert með Rússa að gera,“ sagði Trump við fréttamenn rétt utan við Miami. „Ég sagði að Pútín [Rússlandsforseti] hefði betri leiðtogahæfileika en Obama [Bandaríkjaforseti], en hver veit það ekki?“

Trump hefur ítrekað tjáð sig um að honum og Pútín muni semja vel. Í dag sagði Trump hins vegar að hann hefði aldrei hitt Rússlandsforseta, en að hann drægi í efa ásakanir um að stjórnvöld í Moskvu stæðu að baki gagnalekanum frá forvígismönnum Demókrataflokksins sem varpað hafa skugga á landsþing demókrata þar sem Clinton tekur formlega við tilnefningu flokksins.

„Það veit enginn hvort þetta eru Rússar. Þetta eru líklega Kínverjar, eða einhver sem situr bara einn uppi í rúmi. En þetta sýnir hversu veik við erum fyrir og hversu lítil virðing er borin fyrir okkur,“ sagði Trump.

Rússnesk stjórnvöld hafna því alfarið að þau séu að reyna að hafa áhrif á forsetakosningar í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert