„Hún mun aldrei gefast upp“

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, hvatti Bandaríkjamenn til þess að hunsa pólitískar árásir og kjósa „hina raunverulegu“ Hillary Clinton í forsetakosningunum í nóvember, en hann hélt ræðu á flokksþingi demókrata í gærkvöldi en nokkrum klukkustundum áður hlaut hún útnefningu flokksins formlega.

„Þið ættuð að kjósa hana því hún mun aldrei gefast upp þegar hlutirnir verða erfiðir. Hún mun aldrei gefast upp á þér,“ sagði fyrrverandi forsetinn.

Í ræðunni fór Clinton einnig yfir hvernig hann kynntist eiginkonu sinni og sagði að hann hefði fylgst með henni tileinka líf sitt almannaþjónustu.

„Ég kvæntist besta vini mínum,“ sagði Clinton en hjónin kynntust í Yale-háskólanum vorið 1971. „Við höfum gengið, talað og hlegið saman síðan.“

Sagði hann konu sína jafnframt með sérstaka reynslu sem myndi nýtast vel í starfi en hún hefur eins og margir vita bæði starfað sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetafrú.

„Hillary opnaði augu mín fyrir nýjum heimi almannaþjónustu,“ sagði Clinton.

Eftir ræðuna voru birt myndbandsskilaboð frá frambjóðandanum þar sem hún sagðist ekki trúa sprungunni sem væri komin í „glerþakið“.

„Og ef það eru einhverjar litlar stúlkur þarna úti sem vöktu lengur til þess að horfa vil ég segja þetta: Ég gæti orðið fyrsti kvenforsetinn en ein ykkar er næst.“

Aðrir sem fluttu lofræður um Hillary Clinton í gær voru leikkonurnar Meryl Streep og Lena Dunham. „Við getum barist aðeins áfram, er það ekki?“ spurði Streep áheyrendur við mikinn fögnuð. Benti hún jafnframt á að hún hefði barist fyrir fjölskyldur í Bandaríkjunum síðustu 40 árin.

Bill Clinton á flokksþinginu í gær.
Bill Clinton á flokksþinginu í gær. AFP
Meryl Streep ávarpaði mannfjöldann.
Meryl Streep ávarpaði mannfjöldann. AFP
Alicia Keys tróð upp á flokksþinginu í gærkvöldi.
Alicia Keys tróð upp á flokksþinginu í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert