Peysa fannst 17 dögum eftir hvarfið

Ekkert hefur sést til Emilie Meng síðan 10. júlí.
Ekkert hefur sést til Emilie Meng síðan 10. júlí. Facebook/Missing People Denmark

Svört peysa, sem líkist þeirri sem danska stúlkan Emilie Meng klæddist þegar hún hvarf fyrir 17 dögum, fannst í gær, skammt frá staðnum þar sem hún hvarf hinn 10. júlí. 

Uppfært kl. 10:44 Danska lögreglan hefur nú gefið út yfirlýsingu um að peysan sem fannst hafi ekki tilheyrt Emilie Meng.

Sjá frétt mbl.is: Óhapp eða eitthvað glæpsamlegt

Emilie var á leið heim til sín í bænum Korsør eftir skemmtun í nágrannabænum Slagelse. Á lestarstöðinni í Korsør kvaddi hún vini sína sem ætluðu að taka leigubíl heim, og ákvað sjálf að labba heim til sín. Síðan hefur ekkert sést til hennar.

Mikil leit hófst strax daginn eftir þegar lýst var eftir henni. Lögreglan fann svo í gær svörtu peysuna sem hún á að hafa klæðst nóttina sem hún hvarf. Lögreglan hefur áður gefið það út að annaðhvort hafi eitthvert slys orðið sem hefur orðið til hvarfs hennar, eða eitthvað glæpsamlegt.

Fyrr í vikunni fékk lögreglan ábendingu eftir að íbúi í nágrenninu skoðaði myndbönd úr nýrri eftirlitsmyndavél sem hann hafði komið fyrir á lóð sinni. Þar sá hann tvo unga drengi röltandi aðeins klukkustund eftir að Emilie hvarf. Svo virðist sem annar þeirra hafi haldið á svörtu kvenmannsveski. Lögreglan hefur ekki tjáð sig um innihald myndbandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert