Teiknimyndapersóna traðkaði á Kóraninum

Fólkið á bak við Fireman Sam hefur nú beðist afsökunar.
Fólkið á bak við Fireman Sam hefur nú beðist afsökunar. Af Twitter

Þáttur af breska barnaefninu Fireman Sam hefur verið tekinn úr sýningu eftir að hann sýnir persónu í þáttunum traðka á blaðsíðu úr Kóraninum.

Má sjá slökkviliðsmanninn renna í bunka af blöðum og þegar þau fljúga upp í loft má sjá síðu úr Kóraninum þar á meðal. Umræddur þáttur var fyrst sýndur í október 2014 á sjónvarpsstöðinni Channel 5 en málið kom þó aðeins nýlega upp.

Atriðið má sjá hér að neðan.

Framleiðslufyrirtækið Mattel sem framleiðir þættina hefur beðist afsökunar á mistökunum og sagt að þau hafi ekki verið gerð viljandi. Channel 5 hefur nú fjarlægt þáttinn úr streymi sínu á netinu.

Miqdaad Versi, aðstoðarframkvæmdastjóri Múslimaráðs Bretlands, fordæmdi birtingu Kóransins á Twitter. „Ég veit ekki hvað fór í gegnum huga framleiðendanna þegar þeir héldu að þetta væri góð hugmynd,“ skrifaði hann og bætti við myllumerkinu #ráðþrota eða #baffled. Þá sagði hann jafnframt að umrædd síða sýndi sérstakan hluta úr Kóraninum sem heitir Surah Mulk og vers 13 til 26.

Talsmaður Mattel sagði í samtali við BBC að um væri að ræða óheppilegt atvik þar sem einhver í framleiðslunni hélt að aðeins einhver handahófskenndur texti væri á síðunni.

„Það er ekkert sem bendir til þess að það hafi verið gert af illgirni,“ bætti hann við.

„Síðan átti að sýna ólæsilegan texta og við biðjumst innilegrar afsökunar á þessum mistökum,“ sagði jafnframt í tilkynningu frá Mattel. Var jafnframt greint frá því að fyrirtækið myndi ekki lengur starfa með teiknimyndverinu sem ber ábyrgð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert