Tilræðismaður Reagans látinn laus

Ronald Regan, forseti Bandaríkjanna, ásamt eiginkonu sinni Nancy árið 1981.
Ronald Regan, forseti Bandaríkjanna, ásamt eiginkonu sinni Nancy árið 1981. Wikipedia

John W. Hinckley, sem reyndi að myrða Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, í mars 1981, verður látinn laus á næstunni, 35 árum eftir tilræðið. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að Hinckley væri ekki lengur ógn við samfélagið eða sjálfan sig.

Fram kemur í frétt bandaríska dagblaðsins Washington Post að Hinckley verði látinn laus 5. ágúst og flytur hann þá til níræðrar móður sinnar í borgina Williamsburg í Virginíuríki. Haft verður engu að síður viðamikið eftirlit með honum fyrst um sinn. Virði hann þær takmarkanir sem honum hafa verið settar verður því eftirliti hætt segir í fréttinni. Verði sú ekki raunin kann Hinckley að verða sendur aftur til vistar á geðdeildinni að sögn dómara.

Hinckley var dæmdur til vistar á réttargeðdeild eftir tilræðið en frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur hann fengið að fara nokkra daga í mánuði til móður sinnar. Dögum sem honum hefur verið leyft að heimsækja móður sína hefur smám saman verið fjölgað og hafa undir það síðasta verið 17 dagar í mánuði.

Hinckley er gert að halda sig innan 80 kílómetra frá Williamsburg og hann þarf að afhenda upplýsingar um farsíma sinn og bifreiðir sem hann kann að aka. Þá er honum bannað að nota samfélagsmiðla á netinu, hlaða efni inn á netið og eyða upplýsingum um netnotkun sína.

Reagan særðist í tilræðinu ásamt blaðafulltrúa sínum James Brady, leyniþjónustumanninum Tim Mccarthy og lögreglumanninum Thinas Delahanty. Allir lifðu þeir árásina af en Brady lamaðist vegna byssukúlu sem lenti í höfði hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert