Vill komast út og bæta fyrir brot sín

Þessi mynd er meðal þeirra sem vakið hafa óhug í …
Þessi mynd er meðal þeirra sem vakið hafa óhug í Ástralíu. Á henni má sjá Voller, hlekkjaðan við stólinn, með hettu fyrir andlitinu. Skjáskot af vef ABC

Ástralskur unglingur sem er orðinn andlit hneykslis innan fangelsiskerfisins í landinu, eftir að myndir birtust sem sýndu pyntingar fangavarða á unglingum, hefur sent frá sér bréf þar sem hann þakkar samlöndum sínum fyrir stuðninginn.

Myndir sem sýna Dylan Voller handjárnaðan við stól með hettu yfir andlitinu hafa vakið heimsathygli og verið fordæmdar, bæði af stjórnmálamönnum og almenningi. Forsætisráðherra landsins hefur skipað sérstaka nefnd sem mun nú rannsaka hvernig farið er með unga fanga í norðurhluta landsins.

Fyrri frétt mbl.is: Minna á fangelsið við Guantanamo-flóa

Í bréfi Voller kemur fram að hann óski eftir því að geta bætt fyrir gjörðir sínar. „Ég vildi þakka öllu ástralska samfélaginu fyrir stuðninginn sem þið hafið sýnt okkur strákunum og fjölskyldum okkar,“ sagði Voller. „Ég vil líka nýta tækifærið og biðja samfélagið afsökunar á brotum mínum og ég get ekki beðið eftir að komast út og bæta upp fyrir þau.“

Ástralskir miðlar birtu í vikunni myndbönd sem sýna unglingsdrengi látna fækka fötum, verða fyrir líkamlegu ofbeldi og táragasi, í unglingafangelsi í norðurhluta Ástralíu.

Voller, sem hefur verið dæmdur fyrir glæpi eins og bílaþjófnað, rán og líkamsárás, var fórnarlambið í fjölmörgum árásum fangavarðanna.

Þá var hann hlekkjaður við stól að minnsta kosti þrisvar. Voller var jafnframt haldið reglulega í einangrun 2010 til 2012, þegar hann var aðeins 13–14 ára gamall. Hann var einnig í hópi sex barna sem urðu fyrir táragasi í fangelsinu árið 2014.

Lögmenn Voller birtu bréfið í dag. Í því þakkar hann þeim sem birtu myndböndin fyrir að koma sannleikanum á framfæri. Voller á möguleika á lausn í ágúst.

Lögmaður hans hefur þó krafist þess að honum verið sleppt strax og sagði skjólstæðing sinn óttast um öryggi sitt.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert