Árásirnar hafi ekki áhrif á stefnu Þjóðverja

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir árásir hælisleitenda í landinu undanfarnar vikur ekki breyta áformum Þýskalands um móttöku flóttamanna.

Á blaðamannafundi í Berlín lagði hún þó til lausnir til að auka öryggi í landinu, meðal annars aukið eftirlit á vefnum, t.d. með vopnasölu.

Tvær nýlegar árásir í Bæjaralandi voru gerðar af hælisleitendum. Sjálfsmorðssprengjuárás í Ansbach síðastliðinn sunnudag, sem særði 15 manns, var gerð af sýrlenskum hælisleitanda og axarárás afgansks hælisleitanda í lest við Würzburg særði fimm. Báðir mennirnir kenndu sig við Ríki íslams.

Segir Merkel árásarmennina hafa viljað grafa undan vilja Þjóðverja til að aðstoða nauðstadda og muni ekki komast upp með það. Segir hún árásarmennina í Bæjaralandi hafa svívirt landið sem hafi boðið þá velkomna, en þeir sem flýi ofsóknir og stríðsátök eigi rétt á að vernd og Þýskaland muni halda sig við stefnu sína í innflytjendamálum. Þá sagði hún nýlegum hryðjuverkaárásum í Evrópu vera ætlað að koma á hræðslu og hatri milli menningarheima og trúarhópa.

Sagði hún Þjóðverja enn geta þetta, og vísaði þar í orð sín þegar hún samþykkti móttöku milljón flóttamanna til Þýskalands: „Við getum þetta“ (þ. Wir schaffen das). „Það er söguleg skylda okkar og þetta er söguleg áskorun á tímum hnattvæðingar. Við höfum þegar náð miklum árangri á síðustu 11 mánuðum.“

Þá sagði hún að utan skipulagðrar hryðjuverkastarfsemi, muni Þjóðverjar standa frammi fyrir nýjum hættum, frá óþekktum tilræðismönnum. Til að bregðast við þeim verði að koma á viðvörunarkerfi snemma í ferlinu við komu flóttamanna, svo yfirvöld komi auga á vandamálin.

„Við ráðumst í allar nauðsynlega framkvæmdir til að tryggja öryggi borgara okkar. Við munum taka áskoruninni um aðlögun mjög alvarlega.“

Angela Merkel.
Angela Merkel. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert