Fíll kastar grjóti í barn

Engir járnrimlar skilja dýragarðsgesti frá dýrunum.
Engir járnrimlar skilja dýragarðsgesti frá dýrunum. AFP

Fíll í dýragarði í Marokkó varð barni að bana þegar hann kastaði í það steini að því er greint er frá á fréttavef CNN. Stjórnendur dýragarðsins í borginni Rabat í Marokkó hafa staðfest að fíllinn hafi kastað grjóti í sjö ára gamla stelpu, sem lést nokkrum klukkutímum eftir að komið var með hana á spítala.

Myndband sem einn dýragarðsgestanna tók sýnir hóp af fólki krjúpa í kringum stelpuna og halda um blóðugt höfuð hennar á meðan beðið var eftir sjúkrabíl.

Stjórnendur garðsins segja einn af kvenfílunum hafa kastað grjóti sem lá í fílagerðinu, þegar stelpan var að skoða fílana ásamt fjölskyldu sinni og reyna að ná af þeim mynd.

Engar járngrindur skilja dýragarðsgesti frá dýrunum, heldur eru notaðar til þess djúpar gryfjur og viðargirðingar.

Stjórnendur garðsins hafa sent aðstandendum stúlkunnar samúðarkveðjur sínar og fullyrða í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér að dýragarðurinn uppfylli alþjóðlega öryggisstaðla.

Dýragarðurinn í Rabat er einn stærsti dýragarðurinn í Marokkó og þar má m.a. finna nokkrar dýrategundir sem eru í útrýmingarhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert