Missti fóstrið eftir barsmíðar

Vísbendingar eru um að ofbeldi gegn konum sé að aukast …
Vísbendingar eru um að ofbeldi gegn konum sé að aukast í Afganistan. AFP

Kona sem var komin sex mánuði á leið liggur þungt haldin á sjúkrahúsi í norðurhluta Afganistan eftir að eiginmaður hennar réðst á hana og barði næstum til dauða. Hann skar auk þess hluta af kynfærum hennar af í árásinni. Konan missti fóstur í kjölfar árásarinnar. Þetta staðfestir læknir sem sinnir henni á sjúkrahúsi í Kunduz.

Í frétt BBC um málið segir að konan sé á þrítugsaldri. Ættingjar hennar sem BBC ræddi við segjast ekki vita hver tildrög árásarinnar voru. Hrottalegar árásir sem þessar eru sjaldgæfar í Afganistan en þó eru vísbendingar um að ofbeldi gegn konum sé að aukast í landinu.

Konan segir að eiginmaðurinn hafi ráðist á sig að ástæðulausu. Hann hafi lamið hana með spýtu, klippt af henni hárið og svo rakað höfuð hennar að hluta. Hún segir að eiginmaðurinn hafi notið aðstoðar móður sinnar og systur við að binda hana og berja. 

Héraðsstjórnin á svæðinu segir að myndir af áverkum fórnarlambsins sýni alvarleika árásarinnar en BBC birtir eina þeirra. Lögreglustjórinn í Takhar-héraði segir að eiginmaðurinn hafi lagt á flótta. Hann staðfestir að grunaðir gerendur séu þrír. 

Sérstök lög sem eiga að taka á ofbeldi gegn konum voru sett í landinu árið 2009. Í flestum tilvikum er þó ljóst að þau virka ekki sem skyldi og er ekki beitt í mörgum tilvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert