Myrtur eftir ástarþríhyrning

Frá Stokkhólmi í Svíþjóð.
Frá Stokkhólmi í Svíþjóð. GS

30. apríl á þessu ári fannst lík af rúmlega fimmtugum manni á botni síkis í Stokkhólmi í Svíþjóð. Nú er búið að ákæra karlmann fyrir morðið á manninum. Talið er að málið eigi rætur sínar að rekja til ástarþríhyrnings.

Líkið fannst í síki í Dalarö í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar. Átti þar óbreyttur borgari leið um síkið á báti sínum og sá að á botni síkisins lá líkami manns. Lögreglan var kölluð á svæðið og var líkið sótt af botninum á meðan rannsókn fór fram. Aðeins hálftíma seinna var karlmaðurinn sem nú hefur verið ákærður færður til yfirheyrslna á lögreglustöðinni. Skömmu seinna var rúmlega þrítug kona einnig færð til yfirheyrslna. Um kvöldmatarleytið voru þau bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald, grunuð um að hafa banað manninum sem fannst á botni síkisins.

Rannsóknin leiddi fljótlega í ljós að sennilegast hafi maðurinn verið myrtur á öðrum stað. Tæknimenn lögreglunnar töldu margt benda til þess þegar þeir skoðuðu líkið og reyndu að bera kennsl á manninn. 

Fann kærustu sína heima hjá manninum

Karlmaðurinn sem hefur nú verið ákærður var sambýlismaður konunnar sem einnig var handtekin. Maðurinn hafði leitað að konunni sinni og fann hana loks heima hjá fyrrverandi kærasta hennar. Þá hófst rifrildi og slagsmál sem enduðu með því að hinn ákærði banaði fórnarlambinu. Síkið sem líkinu var komið fyrir í, er staðsett um 1500 metra frá heimili fórnarlambsins. Hinn ákærði á að hafa dregið líkið eftir götunni á bílnum sínum og hent því í síkið. 

Líkið fannst daginn eftir að því var hent í síkið. Þegar lögreglan fór heim til hins ákærða til að handtaka hann, var hinn ákærði afar rólegur og yfirvegaður samkvæmt því sem nágranni mannsins segir við sænska fjölmiðla. „Hann sat rólegur, kláraði bjórinn sinn og henti dósinni í ruslið áður en hann var handtekinn. Hann var ískaldur,“ segir nágranninn í samtali við Aftonbladet.

Hinn ákærði hefur nú viðurkennt að hafa komið líkinu fyrir í síkinu en neitar að hafa banað manninum. Mennirnir eiga að hafa slegist og þá uppgötvaði hinn ákærði að fórnarlambið sýndi ekkert lífsmark. Ákvað hann þá að fela líkið í síkinu.

Samkvæmt ákæruskjalinu sem sænskir fjölmiðlar vitna í, er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á kærustu sína þegar hann fann hana heima hjá fórnarlambinu og slegið hana í höfuðið með beittum hlut.

Konan var í upphafi handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald þar sem talið var að hún ætti aðild að morðinu en henni var síðar sleppt. Ekkert var talið benda til þess að hún ætti hlut í máli. Hún er hins vegar nú talin lykilvitni í málinu enda var hún upphaflega á staðnum þegar morðið var framið.

„Það sem ég get sagt er að skjólstæðingur minn [konan] var upphaflega fyrir mistök úrskurðuð í gæsluvarðhald þar sem hún var á staðnum þegar maðurinn var myrtur. Síðan hefur rannsóknin sýnt að hún átti enga aðkomu að morðinu,“ segir verjandi konunnar í samtali við Expressen.

Sjá frétt Dagbladet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert