Þarf ekki að afla stuðnings

Corbyn fagnaði niðurstöðunni í dag.
Corbyn fagnaði niðurstöðunni í dag. AFP

Breskur dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjórn Verkamannaflokksins var heimilt að ákveða að Jeremy Corbyn, sitjandi leiðtogi flokksins, þyrfti ekki að tryggja sér tilnefningar 51 þingmanns til að rata á kjörseðilinn í fyrirhuguðu leiðtogakjöri.

Framkvæmdastjórninn ákvað að samkvæmt reglum flokksins ætti Corbyn sem sitjandi leiðtogi rétt á því að fara sjálfkrafa á kjörseðilinn.

Það var Michael Foster, einn velgjörðarmanna Verkamannaflokksins, sem höfðaði málið en lögmenn hans héldu því fram að Corbyn þyrfti að afla stuðnings 51 þingmanns til að vera kjörgengur.

Corbyn, sem var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna, fagnaði niðurstöðunni og sagði málið hafa verið tímasóun. Hann sagði að það ætti ekki að vera neinum vafa undiropið að flokksfélagar ættu rétt til þess að kjósa leiðtoga.

Ef Foster hefði unnið málið hefði það skapað mikla óvissu og sundrung innan flokksins, og neytt þingmenn til að gera upp við sig hvort þeir svöruðu kröfum flokksmanna um að tilnefna Corbyn. Sú einkennilega staða er nefnilega uppi að Corbyn nýtur aðeins stuðnings 40 þingmanna flokksins en á engu að síður góða möguleika á að ná endurkjöri.

Valið stendur nú á milli hans og Owen Smith, sem nýtur stuðnings meirihluta þingflokks Verkamannaflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert