Tugir farast í skyndiflóðum í Nepal

Hermenn bjarga hér fórnarlömbum flóðanna, sem orðið hafa 68 manns …
Hermenn bjarga hér fórnarlömbum flóðanna, sem orðið hafa 68 manns að bana AFP

Tæplega 70 manns hafa látið lífið í skyndiflóðum og aurskriðum í Nepal sl. þrjá daga og 15 til viðbótar er saknað.

Björgunarteymi frá bæði her og lögreglu hefur notað gúmmíbáta og þyrlur til að bjarga fólki sem komið hafði sér fyrir uppi í trjám og á húsþökum, hefur Reuters-fréttastofan eftir Yadav Koirala, talsmanni nepalska innanríkisráðuneytisins.

Í bænum Butwal, sem er um 170 km frá höfuðborginni Katmandú, reif straumurinn með sér verklega hengibrú. Einn íbúa Butwal, Yub Raj Rana, tók myndir af því á símann sinn þegar áin rauf steypta bakka sína og átti fótum sínum fjör að launa að komast í öruggt skjól.

Í nágrannaríkinu Indlandi hafa flóðin haft áhrif á líf 1,7 milljóna manna. 15 hafa látist í flóðum þar og í Assam, þar sem ár flæða stöðugt yfir bakka sína, þykir ástandið tvísýnt. Búið er að opna um 500 neyðarskýli í fylkinu, sem liggur nú að stærstum hluta undir vatni.

Mikið er um flóð og aurskriður á Indlandi og í Nepal á monsúntímabilinu, sem stendur yfir frá júní og fram í september, og farast hundruð manna í slíkum flóðum ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert