Ætla að rannsaka kynlíf landsmanna

Skoðanakannanir sænskra fjölmiðla benda til þess að Svíar stundi nú …
Skoðanakannanir sænskra fjölmiðla benda til þess að Svíar stundi nú minna kynlíf en áður. Thinkstock / Getty Images

Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð ætla að láta framkvæma þriggja ára opinbera rannsókn á kynlífi landsmanna, en sambærileg rannsókn var síðast gerð í Svíþjóð fyrir tuttugu árum.

Gabriel Wikström, heilbrigðisráðherra landsins, sagði stefnumál varðandi kynheilsu ekki bara eiga að snúast um vandamálin, heldur líka um ánægjuna sem fylgi kynlífi.

Skoðanakannanir sem sænskir fjölmiðlar hafa látið framkvæma benda til þess að Svíar stundi nú minna kynlíf en áður, sagði ráðherrann í grein sem birtist í dagblaðinu Dagens Nyheter. Nýju rannsókninni er ætlað að komast að því hvort þetta sé rétt og ef svo er, hver ástæðan sé.

Streita gæti verið ein ástæðan að mati Wikström

Sænska lýðheilsustofnunin mun sjá um framkvæmd rannsóknarinnar og búist er við að niðurstöður hennar liggi fyrir í júní 2019.

„Það er þversagnakennt að á sama tíma og allt samfélagið virðist vera gegnsýrt af kynlífsvísunum – allt frá auglýsingum að samfélagsmiðlum og stórum hluta daglegs lífs, er kynlíf enn þá hulið vissri skömm […] og skortir í stjórnmálaumræðuna,“ sagði Wikström.

Kynsjúkdómar, óvelkomnar þunganir og nauðganir eru meðal þeirra vandamála sem athyglinni verður beint að í rannsókninni, sem einnig mun beinast að ánægjulegum kynlífsupplifunum svo að forðast megi að vandamálin hafi brenglandi áhrif á heilbrigðisstefnumál.

„Hvernig getum við breytt viðhorfum,“ spurði Wikström í grein sinni, „þegar svo mörgum, allt frá foreldrum og kennurum að hátt settum embættismönnum, líður greinilega illa að tala um kynlíf?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert