Hryllileg meðferð á unglingaheimilum

Í heimildarmyndinni mátti sjá Dylan Voller fjötraðan við stól.
Í heimildarmyndinni mátti sjá Dylan Voller fjötraðan við stól.

„Síðast þegar ég sá hann var búið að brjóta hann niður,“ segir systir unglingspilts sem er einn þeirra sem sættu hroðalegri meðferð í unglingafangelsi í Ástralíu. „Hann gat ekki horft í augun á mér, hann gat ekki verið hreinskilinn við mig, hann gat ekki brosað,“ segir Kirra Voller um bróður sinn, Dylan. „Ég hafði misst bróður minn um stund.“

Í heimildarmynd, sem m.a. byggðist á upptökum úr eftirlitsmyndavélum frá mörgum unglingaheimilum í Ástralíu, mátti sjá Dylan með hvíta hettu á höfði og með hlekki um hálsinn. Hann var einnig bundinn á höndum við stól. Hann var sautján ára er myndbandið var tekið upp árið 2015.

Í frétt CNN um málið er haft eftir systur hans að hún hafi varla getað horft á heimildarmyndina og þá meðferð sem bróðir hans og önnur börn og ungmenni hafa þurft að þola.

Í heimildarmyndinni mátti sjá hvernig börn allt niður í tíu ára voru beitt táragasi, látin afklæðast og þeim hent inn í fangaklefa. Dylan var einn þeirra sem urðu fyrir táragasi. Þá var hann sextán ára.

Í kjölfar sýningar myndarinnar, sem hefur vakið mikla reiði í Ástralíu og víðar, hefur forsætisráðherra landsins beðið um opinbera rannsókn á rekstri stofnananna. Þá hefur lögreglan stofnað sérsveit sem á að rannsaka þessi mál.

Margir hafa bent á að vandinn hafi lengi verið þekktur og fjölmargir vitað um þá meðferð sem börnin eru látin sæta.

Howard Bath, fyrrverandi yfirmaður barnaverndar í Ástralíu, segist hafa vakið athygli yfirvalda á illri meðferð á stofnunum árið 2014. Hann segir að ekki sé nóg að banna fjötrun, taka þurfi á þeirri menningu sem þar virðist viðgangast.

Núverandi yfirmaður barnaverndar segist einnig hafa vakið athygli á illri meðferð barnanna í skýrslu árið 2015. Hann segir að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar voru.

Dylan Voller var fluttur í fangelsi fyrir fullorðna er hann var átján ára. Systir hans segir að það hafi breytt lífi hans. „Hann virðist hafa fundið vonina á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert