Drepin vegna skuldar upp á 26 krónur

Ung hjón á ferðinni í Indlandi. Mynd úr safni.
Ung hjón á ferðinni í Indlandi. Mynd úr safni. AFP

Indverskur karlmaður og eiginkona hans voru drepin í gær vegna skuldar upp á 15 rúpíur sem er jafnvirði 26 króna. Karlinn var afhöfðaður en konan höggvin til bana. Að sögn lögreglu voru hjónin drepin af yfirstéttarkaupmanni í gær þegar þau sögðu honum að þau þyrftu tíma til þess að borga fyrir kex sem þau keyptu af honum.

Kaupmaðurinn hefur nú verið handtekinn.

Hjónin tilheyrðu Dalit-stéttinni sem er lægsta stéttin í Indlandi. Árásin átti sér stað í Uttar Pradesh-fylki en hjónin voru á leið til vinnu þegar kaupmaðurinn, Ashok Mishra, stöðvaði þau og krafðist þess að þau borguðu fyrir kex sem þau keyptu handa börnum sínum þremur fyrir nokkrum dögum. Hjónin eiga að hafa sagt manninum að þau myndu borga eftir að þau fengju laun sín greidd seinna sama dag.

„Á meðan Mishra hélt áfram að öskra á hjónin byrjuðu þau að labba í átt að akri. Mishra hljóp þá heim til sín og sneri aftur með öxi,“ sagði þorpsbúi sem varð vitni að árásinni.
Kaupmaðurinn réðst fyrst að manninum og svo konunni þegar hún reyndi að bjarga honum. Hjónin létu lífið á staðnum.

Dalit-fólk hefur nú mótmælt árásinni og lokað vegum í þorpinu. Fyrr í mánuðinum var ráðist á fjóra menn af Dalit-stétt fyrir að reyna að húðfletta kú í Gujarat-fylki. Margir hindúar líta á kúna sem heilaga og slátrun á kúm er ólögleg í mörgum fylkjum Indlands.

Þá var maður af Dalit-stéttinni myrtur fyrir að giftast konu úr hærri stétt í fylkinu Tamil Nadu. Faðir konunnar gaf sig sjálfur fram og viðurkenndi að hafa drepið manninn.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert