Flóttafólk ekki velkomið

Eigendur Nissegården telja að sveitarfélagið sinni flóttabörnum betur heldur en …
Eigendur Nissegården telja að sveitarfélagið sinni flóttabörnum betur heldur en íbúum. Af vef Nissegården

Eigendur Nissegården-tjald- og útivistarsvæðisins í Lom í Guðbrandsdal í Noregi neituðu nýlega að taka á móti hópi flóttafólks á svæðinu þegar starfsmenn flóttamannaaðstoðar sveitarfélagsins óskuðu eftir að fá að koma með hópinn í heimsókn.

Samkvæmt frétt Gudbrandsdølen Dagningen voru bæði börn og fullorðnir í flóttamannahópnum og átti að greiða fullt verð fyrir hópinn.

Ein af þeim sem skipulögðu heimsóknina, Magrethe Øvrelid, starfsmaður sveitarfélagsins Skjåk, vill ekki tjá sig um þessa ákvörðun eigenda Nissegården við blaðið að öðru leyti en að þetta væri mjög óheppileg ákvörðun og að starfsfólk flóttamannaaðstoðarinnar hefði aldrei fengið viðbrögð sem þessi áður. Yfirleitt mætti þeim ekkert annað en góðvild meðal fyrirtækja og íbúa.

Øvrelid vildi tryggja að hún hefði ekki misskilið munnlegt svar eigenda Nissegården og sendi þeim tölvupóst. En svörin voru þau sömu. Ef sveitarfélagið eyddi fjármunum sínum í íbúana þá væri svarið á annan veg og hópurinn fengi að koma í heimsókn segir meðal annars í skriflegu svari frá Nissegården.

Grethe Madsen, sem rekur tjald- og afþreyingarmiðstöðina ásamt eiginmanni sínum, Kjell, staðfestir við dagblaðið að hún hafi ekki áhuga á að taka á móti flóttafólki í miðstöðinni.

„Það er réttur okkar að taka afstöðu sem þessa. Ég tel að þeir eigi að virða það. Við metum ástandið svona og við búum í lýðræðisþjóðfélagi þrátt fyrir allt,“ segir hún.

Madsen neitar því að vera rasisti en segir að það sé sín skoðun að sveitarfélagið veiti flóttabörnum betri þjónustu en börnum sem eru búsett í sveitarfélaginu og það sé meðal annars ástæðan fyrir synjuninni.

Vefur tjald- og afþreyingarmiðstöðvarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert