Önnur tölvuárás gerð hjá demókrötum

Mikill fjöldi var á landsþingi Demókrataflokksins, er Hillary Clinton tók …
Mikill fjöldi var á landsþingi Demókrataflokksins, er Hillary Clinton tók við útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins. Landsþingið hefur þó farið fram í skugga tölvuárása sem sumir telja ætlaðar til að hafa áhrif á úrslit komandi forsetakosninga. AFP

Forsvarsmenn Demókrataflokksins greindu í dag frá því að flokkurinn hafi aftur orðið fyrir tölvuárásum, sambærilegum þeim sem urðu hjá landsnefnd flokksins í síðustu viku, þegar 20.000 tölvupóstar frá flokksforystunni voru birtir á vefsíðu Wikileaks.

AFP-fréttastofan segir fréttirnar vekja frekar spurningar í Bandaríkjunum um aðgerðir rússneskra hakkara sem starfsfólk kosningabaráttu Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, fullyrðir að hafi staðið fyrir árásunum.

Stjórnvöld í Moskvu hafa hafnað ásökununum og segja þær fáránlegar. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur hins vegar ekki viljað útiloka að stjórnvöld í Rússlandi séu að reyna að hafa áhrif á komandi forsetakosningar.

Merdith Kelly, ritari landsnefndarinnar, staðfesti í dag að kosninganefnd þingflokksins hefði orðið fyrir tölvuárás og að rannsókn væri nú í gangi.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá rannsakendum þá svipar þessari árás til annarra nýlegra tölvuárása, m.a. þeirrar sem gerð var hjá landsnefnd Demókrataflokksins,“ sagði í yfirlýsingu frá Kelly.

Unnið sé nú að því að bæta tölvuöryggi og verið sé að aðstoða lögreglu við rannsókn á málinu. 

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, nefndi tölvuárásina á landsnefnd Demókrataflokksins við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi þeirra í vikunni.

„Utanríkisráðherrann hefur minnst á að við höfum haft áhyggjur af aðgerðum Rússa í netheimum um nokkurn tíma,“ sagði  Eric Schultz, talsmaður Hvíta hússins, í dag. „Mig grunar að þetta verði ekki í síðasta skipti sem við munum ræða þessi mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert