Óttast að flóttamenn streymi til Evrópu á ný

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, hefur áhyggjur af þróun mála …
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, hefur áhyggjur af þróun mála í Evrópu. AFP

Veruleg hætta er á að samkomulag Evrópusambandsins við stjórnvöld í Tyrklandi um leiðir til að stemma stigu við flóttamannastraumnum til Evrópu verði rofið. Þetta er mat Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, en í viðtali við austurríska dagblaðið Kurier segir Juncker áhættuna á þessu verulega.

„Sá árangur sem nú hefur náðst með samkomulaginu er brothættur. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur þegar gefið nokkrum sinnum í skyn að hann vilji rjúfa samkomulagið,“ sagði Juncker. „Ef það gerist megum við búast við að hælisleitendur fari aftur að koma til Evrópu.“

ESB-ríkin og stjórnvöld í Tyrklandi náðu í mars á þessu ári samkomulagi sem dregið hefur úr þeim straumi flóttamanna sem áður kom til Evrópu í gegnum Tyrkland. Leiðtogar ESB hafa hins vegar áhyggjur af að samkomulagið verði rofið í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar í Tyrklandi 15. júlí sl.

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa í kjölfar valdaránstilraunarinnar staðið fyrir miklum hreinsunum, sem falið hafa í sér að þúsundir hermanna, lögreglumanna og starfsmanna dómskerfisins hafa verið handteknar og þá hafa hundruð ráðuneytisstarfsmanna misst vinnuna.

Þremur dögum eftir valdaránstilraunina var hópi tyrkneskra embættismanna, sem hafði það hlutverk að fylgjast með ferðum flóttamanna Grikklandsmegin, skipað að snúa heim til Tyrklands og enn hafa engir verið ráðnir í þeirra stað.

Juncker lýsti því einnig yfir að hann hefði „miklar áhyggjur“ af þróun mála innan ríkja ESB, ekki síst í Póllandi og Ungverjalandi.

„Aðgerðir pólsku stjórnarinnar hafa skaddað réttarkerfið … Og ég fylgist áhyggjufullur með undirbúningi ungversku stjórnarinnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu vegna fólksflutninganna,“ sagði Juncker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert