„Sameinuð erum við sterkari“

Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember, sagði kosningarnar „tíma uppgjörs“ þegar hún tók formlega við útnefningu flokksins í gærkvöldi. Clinton, sem er fyrsta konan til þess að hljóta tilnefninguna í sögu Bandaríkjanna, sagði miklar áskoranir fram undan. „Kraftmikil öfl hóta nú að rífa okkur í sundur,“ sagði Clinton.

Þá sakaði hún Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, um að ætla sér að sundra bæði Bandaríkjamönnum og einnig þjóðinni frá öðrum þjóðum. Trump gagnrýndi ræðu keppinautsins á Twitter og sagði Clinton hafa mistekist að ræða um ógnina sem að hans mati öfgamenn innan íslamstrúar eru. Sagði hann Clinton óhæfa til þess að leiða bandarísku þjóðina.

Það var dóttir Clinton, Chelsea, sem kynnti móður sína upp á svið í gærkvöldi. Rifjaði hún upp persónulegar minningar af móður sinni. „Mín yndislega, hugsandi og fyndna móðir,“ sagði hin 36 ára gamla Chelsea. „Hún var alltaf til staðar fyrir mig.“

Clinton fór um víðan völl í ræðu sinni og fór m.a. yfir stofnun Bandaríkjanna, sem að mati sérfræðinga er þekkt aðferð frambjóðenda sem Trump vanrækti í sinni ræðu.
Ítrekaði hún að Bandaríkin hefðu verið stofnuð með þeirri hugmynd að „sameinuð erum við sterkari“.

Í ræðunni hét hún m.a. því að ef hún yrði forseti yrðu fleiri störf sköpuð í landinu, með hækkandi launum og launajafnrétti, brugðist við loftslagsbreytingum, innflytjendamálum breytt
þannig að auðveldara verði fyrir óskráða innflytjendur að fá ríkisborgararétt og „heilbrigðri“ byssulöggjöf komið á. 

Viðurkenndi hún að of margir Bandaríkjamenn hefðu verið „skildir eftir“ í efnahagsástandi landsins og ávarpaði þá beint.

„Sumir ykkar eru pirraðir, jafnvel brjálaðir. Og þið eigið rétt á því,“ sagði Clinton.

Clinton í gærkvöldi.
Clinton í gærkvöldi. AFP
Chelsea Clinton (t.h.) ásamt eiginmanni sínum.
Chelsea Clinton (t.h.) ásamt eiginmanni sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert