Tóku 24 óbreytta borgara af lífi

Meðlimir sýrlenska lýðveldishersins, sem nýtur stuðnings Bandaríkjamanna og fleiri ríkja, …
Meðlimir sýrlenska lýðveldishersins, sem nýtur stuðnings Bandaríkjamanna og fleiri ríkja, í bænum Manbij. AFP

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams tóku 24 óbreytta borgara af lífi í þorpi í norðurhluta Sýrlands. Samtökin höfðu nýverið náð yfirráðum í þorpinu.

Mannréttindasamtökin The Syrian Observatory for Human Rights segja að aftökurnar hafi verið gerðar á einum sólarhring.

Þorpið er um 10 km norðvestur af bænum Manbij sem er skammt frá landamærunum að Tyrklandi. 

Ríki íslams hefur hrifsað völdin í nokkrum þorpum á þessu svæði síðustu þrjá sólarhringa. Valdtökunni hefur verið svarað af sýrlenska lýðræðishernum sem nýtur stuðnings bandamanna, m.a. Bandaríkjamanna. 

Frá því sókn bandamanna á svæðinu hófst í lok maí hefur þeim tekist að komast inn í Manbij en hafa síðustu daga og vikur mætt mikilli mótstöðu frá vígamönnum Ríkis íslams sem hafa brugðist við með sjálfsmorðsárásum og bílsprengjum. 

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í yfir fimm ár. Að minnsta kosti 280 þúsund manns hafa fallið í átökum. Milljónir eru á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert