Tólf fengu að fara í gegn

Sýrlenskir hermenn í Aleppo í gær.
Sýrlenskir hermenn í Aleppo í gær. AFP

Aðeins nokkrir íbúar sýrlensku borgarinnar Aleppo fengu að yfirgefa yfirráðasvæði uppreisnarmanna í gegnum sérstaka ganga mannréttindasamtaka í borginni áður en þeir voru stöðvaðir af uppreisnarmönnum.

Rússar tilkynntu í gær að opnaðar yrðu sérstakar leiðir fyrir almenna borgara og uppgjafahermenn sem vildu yfirgefa austurhluta borgarinnar sem er undir stjórn uppreisnarmanna. Rauði krossinn hefur greint frá mikilvægi þess að þessar leiðir verði virtar og fólki leyft að flýja. 

Orrustuþotur stjórnarhersins gerðu loftárásir í Austur-Aleppo í nótt að sögn samtakanna Syrian Observatory for Human Rights en ekki liggja fyrir upplýsingar um særða eða látna.

Þá greina sömu samtök frá því að lokað hafi verið fyrri þessar sérstöku leiðir af uppreisnarmönnunum í dag. Leiðirnar voru hins vegar opnar hinum megin, þar sem stjórnarherinn er með völdin.

Síðan þær voru opnaðar náðu aðeins tólf að nýta sér Bustan al-Qasr-leiðina áður en henni var lokað af uppreisnarmönnum og fjölskyldum bannað að komast að henni.
Samninganefnd uppreisnarmanna í friðarviðræðunum, HNC-nefndin, gagnrýndi leiðirnar í gær og sagði Rússa og stjórnarherinn reyna að breyta landafræði borgarinnar og ýta undir „tilneydda tilfærslu“.

Stjórnarherinn og bandamenn þeirra umkringdu austurhluta Aleppo 17. júlí og vakti það áhyggjur af þeim 250.000 Sýrlendingum sem búa þar. Síðan umsátrið hófst hefur matar- og lyfjaskortur verið í borginni, sem bitnar mest á almennum borgurum.

Að sögn sérfræðinga væri það mikið áfall fyrir uppreisnarmennina að missa stjórn í Aleppo og yrðu það mikil straumhvörf í stríðinu í Sýrlandi sem hófst árið 2011.

280.000 manns hafa látið lífið í stríðinu og milljónir þurft að flýja heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert