Öfgaþjóðernissinnaðar sumarbúðir

Um 15 krakkar eru í sumarbúðunum.
Um 15 krakkar eru í sumarbúðunum. Skjáskot/Expressen

Sænsku dagblöðin Expo og Expressen greina í dag frá því að öfgaþjóðernissamtökin Sturmvogel haldi sumarbúðir fyrir börn í Smálöndum í Svíþjóð. Krakkarnir í sumarbúðunum hefja hvern dag á því að syngja þýskt þjóðlag og þau ganga um í einkennisbúningum.

þessar þjóðernissinnuðu sumarbúðir eru til húsa í stórum skógi og hafa blaðamenn komist að því að fleiri byggingar á svæðinu, sem eru í eigu þýsks pars, eru notaðar undir búðirnar.

Hjónin sem eru sögð eiga svæðið eru þýsk. Eru þau sögð hafa verið háttsett innan þýskra öfgahægri- og nýnasistasamtaka.

Þegar blaðamenn heimsóttu parið og spurðu hvað færi fram í skóginum sögðu þau að börnin væru öll barnabörn þeirra og vinir barnanna. Þau harðneita því að sumarbúðirnar tengist samtökunum Sturmvogel.

Syngja fyrir framan rauðan og hvítan fána

Hver einasti dagur hefst á því að börnin standa fyrir framan fánastöng þar sem blaktir við hún rauður og hvítur fáni með ránfugli á og syngja þýskt þjóðlag. Mikill agi er á börnunum. Strax eftir morgunmatinn er þeim úthlutað verkefnum. Stelpurnar eru látnar tína ber og rætur en strákarnir látnir gera leikfimisæfingar. Allt þetta gera börnin í einkennisbúningum. Stelpurnar í síðu pilsi, grænni skyrtu og með fléttu í hárinu. Drengirnir eru í hnésíðum buxum og í grænni skyrtu. 

Samtökin Sturmvogel eiga sér djúpstæðar rætur í þýsku nýnasistahreyfingunni. Þau voru stofnuð 1987 og tengjast hinum nú bönnuðu samtökum Wiking-Jugend og Heimattreue Deutsche Jugend, samkvæmt heimildum Expo. Sturmvogel-samtökin voru meðal annars stofnuð af fyrrverandi meðlimi í Wiking-Jugend. 

Elstu börnin í sumarbúðunum eru 15-16 ára gömul. Alls eru krakkarnir um 15 talsins. 

Sjá frétt Expo.

Sjá frétt Expressen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert