Röngum fána flaggað í Færeyjum

Fáninn sem blakti við hún við dómshúsið í Þórshöfn í …
Fáninn sem blakti við hún við dómshúsið í Þórshöfn í gær. Mynd/Twitter/Mikkel Wrang

Mörgum brá í brún þegar þeir sáu fánann sem hafði verið hífður að húni við dómshúsið í Þórshöfn í Færeyjum í gær. Vitlausir litir voru á færeyska fánanum á sjálfan þjóðhátíðardaginn 29. júlí.

Dagurinn er hluti af Ólafsvökunni, en það er nokkurra daga hátíð sem haldin er ár hvert. Hátíðin á rætur sínar að rekja til miðalda þegar Færeyjar lutu stjórn Norðmanna.

Fáninn sem blakti við hún við dómshúsið í gær var hvítur en litunum á krossunum inni í fánanum hafði verið víxlað. 

Danska ríkisútvarpið ræddi við Færeying sem býr í nágrenni við dómshúsið. 

„Ég hélt þetta væri grín,“ sagði Rannvá Magnadóttir við DR. „Allir stóðu og göptu. Það er ótrúlegt að við opinberan dómstól í Færeyjum skuli vera hífður upp fáni sem táknar ekki neitt. Þetta er skammarlegt og neyðarlegt. Svona gerir maður ekki,“ segir Rannvá.

Fáninn var samkvæmt heimildum DR tekinn niður um korteri eftir að honum var flaggað. 

Dómshúsið í Færeyjum er ekki eini staðurinn þar sem röngum fána var flaggað. Hið sama gerðist við fjölda opinberra bygginga í Danmörku en nú í ár er fyrsta skiptið sem færeyska fánanum er flaggað á þjóðhátíðardag landsins við opinberar danskar byggingar.

Röngum fána var flaggað meðal annars við Kaupmannahafnarháskóla og kauphöllina í Kaupmannahöfn.

Sjá frétt mbl.is: Færeyingar 50 þúsund á næsta ári

Mbl.is fjallaði í gær um ræðu lögmanns Færeyja á Ólafsvöku. Þar ræddi hann meðal annars þá staðreynd að Færeyingum er nú farið að fjölga, og sagði hann að það mætti rekja til þess að fleiri konur á barneignaaldri ákveða nú að setjast að í Færeyjum. 

Sjá frétt mbl.is: Dansa „Orminn langa“ fram á nótt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert