Hæðnisorð Trumps valda reiði

Donald Trump forsetaframbjóðandi repúblikana heldur hér á smábörnum á kosningafundi …
Donald Trump forsetaframbjóðandi repúblikana heldur hér á smábörnum á kosningafundi í Colorado Springs. Ummæli hans um Ghazölu Khan hafa valdið reiði. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, hefur vakið mikla reiði fyrir að hæðast að móður fallins bandarísks hermanns sem var múslimi.

Ghazala Khan stóð hljóð hjá þegar maður hennar gagnrýndi Trump í tilfinningaþrunginni ræðu á landsþingi Demókrataflokksins á fimmtudag. Trump ýjaði að því í framhaldinu að hún hefði ekki mátt segja neitt.

Bæði flokksbræður Trumps og félagar í Demókrataflokknum segja að ekki eigi að tala um móður stríðshetju með þessum hætti. Khan hefur sagt að ummæli Trumps hafi valdið sér sárindum.  

Eiginmaður Khan, Khizr Khan, sagði á landsþingi demókrata að Trump hefði fórnað „engu og engum“ fyrir land sitt. Hans eigin sonur, sem dó af völdum bílsprengju í Írak 2004, hefði hins vegar ekki einu sinni fengið að vera í Bandaríkjunum ef Trump hefði fengið að ráða, en Trump hefur kallað eftir að múslimum verði bannað að koma til Bandaríkjanna.

Trump brást við gagnrýninni í viðtali við sjónvarpsstöðina ABC. „Ef maður horfir á konu hans, þá stendur hún bara þarna. Hún hafði ekkert að segja … kannski mátti hún ekki einu sinni tala,“ sagði Trump.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og eiginmaður Hillary Clinton, núverandi forsetaframbjóðanda demókrata, sagðist ekki geta ímyndað sér hvernig Trump hefði getað látið þessi orð falla um móður hermanns sem hlotið hefði gullstjörnuna. Tim Kaine, varaforsetaefni demókrata, sagði ummæli Trumps óviðeigandi. „Hann var að reyna að gera þetta mál hlægilegt,“ hefur AP-fréttastofan eftir Kane.

„Það sýnir bara hversu óheppileg skapgerð hans er. Ef maðurinn hefur ekki meiri samkennd en þetta er ég ekki viss um að hann geti öðlast hana.“

John Kasich, ríkisstjóri Ohio og fyrrverandi keppinautur Trumps um útnefningu repúblikana, sagði í twitterskilaboðum að það væri aðeins ein leið að tala um gullstjörnuna og það væri með virðingu.

ABC-sjónvarpsstöðin ræddi við Khan, sem sagðist ekki skilja hvernig sorg hennar hefði farið framhjá Trump og það ylli henni sárindum.

Kosningaframboð Trumps sendi um helgina frá sér yfirlýsingu þar sem Humayun Khan höfuðsmanni, syni Khan, var hampað sem hetju. „Raunverulegi vandinn eru öfgasinnuðu íslömsku hryðjuverkamennirnir sem myrtu hann og tilraunir þessara öfgasinna til að komast inn í land okkar til að valda okkur frekara tjóni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert