Halda æfingar þrátt fyrir hótanir

Kim Jong-un og félögum hans í Norður-Kóreu líst illa á …
Kim Jong-un og félögum hans í Norður-Kóreu líst illa á fyrirhugaðar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. AFP

Eric Fanning, hermálaráðherra Bandaríkjanna, segir að sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu muni fara fram í næsta mánuði, þrátt fyrir hótanir Norður-Kóreu um að stríð gæti brotist út í kjölfar þeirra.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa mótmælt æfingunum og segja þjóð sína tilbúna til að fara í stríð. Æfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreu valda ævinlega nokkurri gremju á norðurhluta Kóreuskaga og bregðast ráðamenn þar nyrðra jafnan við með hótunum.

Fanning segir æfingarnar hafa átt sér stað í áratugi og að þær stuðli að stöðugleika, fremur en hitt. „Við höfum haft æfingar með Suður-Kóreu og mörgum öðrum herjum á svæðinu í áratugi. Þær eru hluti þess stöðugleika sem hefur ríkt síðan í heimsstyrjöldinni síðari.“

Um 30.000 bandarískir hermenn og 50.000 suðurkóreskir samstarfsmenn þeirra tóku þátt í æfingunum í fyrra. Tveir suðurkóreskir særðust þá þegar jarðsprengja sprakk, sem olli órólegu ástandi þar sem köldu andaði á milli Kóreuríkjanna, en engin átök brutust út.

The Guardian hefur eftir Han Song Ryol, frá norðurkóreska utanríkisráðuneytinu, að Kóreuskagi væri á barmi stríðs, eftir að Bandaríkin settu viðskiptabann á leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un.

Sagði hann umfang æfinganna nú fordæmalaust og að Bandaríkin hefðu flutt tvo kjarnorkukafbáta til hafnar í Suður-Kóreu fyrir æfingarnar, auk tveggja B52-sprengjuflugvéla og séu nú að skipuleggja uppsetningu fullkomnasta eldflaugavarnarkerfis heims.

Norður-Kórea telji æfingarnar undirbúa innrás í landið og tilræði við leiðtoga þess. „Með þessum fjandsamlegu aðgerðum gagnvart Alþýðulýðveldinu Kóreu hafa Bandaríkin lýst yfir stríði gegn því. Það er réttur okkar til sjálfsvarnar að bregðast við þessum aðgerðum af hörku.“

„Við erum öll tilbúin í stríð og við erum öll tilbúin í frið. Verði af þessum umfangsmiklu æfingum í ágúst bera Bandaríkin ábyrgð á því ástandi sem hlýst af þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert