Tvær skotárásir í skemmtanahverfi Austin

Önnur skotárásin átti sér stað við bílageymslu.
Önnur skotárásin átti sér stað við bílageymslu.

Ein kona er látin og fjórir slasaðir eftir tvær aðskildar skotárásir í Austin, ríkishöfuðborg Texas. Fréttavefur BBC hefur eftir lögreglu á staðnum að engin hætta sé lengur talin á ferðum. Árásirnar áttu sér stað með nokkurra mínútna millibili í þeim hluta borgarinnar þar sem flestir skemmtistaðir eru og vöktu ótta um að árásarmaður skyti þar á fólk af handahófi.

Fyrri árásin átti sér stað fyrir utan bar þar sem komið hafði til pústra milli nokkurra einstaklinga. Hóf árásarmaðurinn þá að skjóta á mannfjöldann sem þar var samankominn. Kona á þrítugsaldri féll í skotárásinni og var úrskurðuð látin á vettvangi. Þrjár konur til viðbótar slösuðust í árásinni og voru fluttar á sjúkrahús, en ekki var talið að meiðsl þeirra væru lífshættuleg.

Ekki er búið að ná árásarmanninum og biðlar lögregla í Austin til þeirra sem voru á vettvangi og mögulega eiga myndir af árásinni og eftirleik hennar í símum sínum að hafa samband.

Seinni árásin átti sér stað skammt frá þeirri fyrri. Þar var skotum hleypt af í bílakjallara og var farið með mann á sjúkrahús sem hafði orðið fyrir árás. Lögregla telur hinn slasaða þó vera þann sem hleypti skotum af og á fréttavef Guardian kemur fram að hún telji skotárásirnar tvær ekki lengur vera verk sama einstaklings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert