Fann þrjá birni í eldhúsinu

Birnirnir á leið upp stigann í húsinu.
Birnirnir á leið upp stigann í húsinu. Skjáskot af Facebook

Sagan af manni sem fann þrjá birni í eldhúsinu heima hjá sér endaði ekki alveg eins og ævintýrið um Gullbrá og birnina þrjá. En þessi saga er þó dagsönn og frá henni er m.a. greint á vefsíðu Washington Post:

Einu sinni, reyndar bara í síðustu viku, kom Rodney Ginn í Kaliforníu heim til sín eftir vinnu og sá að rennihurð að húsi sínu voru opnar. Hann lokaði þeim samviskusamlega.

Meðleigjandi mannsins var sofandi á efri hæðinni. En þá heyrði hann hljóð úr eldhúsinu. Og gat ekki annað gert en að kanna hvað væri í gangi.

Þrennt var þar á gangi: Birna og tveir húnar hennar. Ginn rauk strax upp á efri hæðina og tók á leið sinni myndskeið. Á því má sjá að birnan var ekki á þeim buxunum að bíða róleg þar til hrærigrauturinn í eldhúsinu kólnaði, eins og félagi hennar í ævintýrinu um Gullbrá. 

Birnirnir þrír fóru af stað og upp í stigann í húsinu. Þeir dvöldu svo í húsinu í um hálftíma í viðbót en fóru svo út sömu leið og þeir komu inn: Um rennihurðina. Hana opnuðu þeir sjálfir. 

Eldhús þeirra félaga var hins vegar í rúst eftir heimsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert