Enginn ábyrgur 26 árum síðar

Unnið að slökkvistarfi í Skagerak milli Óslóar og Friðrikshafnar 7. …
Unnið að slökkvistarfi í Skagerak milli Óslóar og Friðrikshafnar 7. apríl 1990. Skjáskot af vef NRK

Í apríl árið 1990 varð mikill eldur um borð í skipinu Scandinavian Star sem var á leið frá Osló til Fredrikshavn í Danmörku. 159 manns létu lífið. Í kjölfar skýrslu sem kom út árið 2013 var framkvæmd ný lögreglurannsókn á brunanum um borð en nú hefur aðstandendum hinna látnu verið tilkynnt um að enginn verður dreginn til ábyrgðar vegna málsins.

Slysið varð þann 7. apríl 1990 á Skagerak-svæðinu á milli Noregs og Danmerkur. Helsta vafaatriði málsins snýst um það hvort kveikt hafi verið í skipinu viljandi í þeim tilgangi að svíkja út tryggingafé.

Eldur kviknaði á sex stöðum

Fyrsti bruninn um borð varð um miðja nótt klukkan um 01:45 þegar kviknaði eldur í sængurfötum fyrir utan káetu í skipinu. Greiðlega gekk að slökkva þann eld. Um korteri síðar kviknaði annar eldur. Talið er hafið yfir vafa að sá eldur hafi verið kveiktur með eldfimu efni. Sá eldur dreifðist hratt um skipið. Alls kviknuðu sex eldar á skipinu og rennir það stoðum undir þá kenningu að kveikt hafi verið í af mannavöldum.

Um einum og hálfum tíma síðar hafði eldurinn dreift þannig úr sér að skipstjórinn varð að hætta við öll slökkvistörf og yfirgefa skipið. 158 einstaklingar létu lífið í brunanum og einn til viðbótar lést síðar af sárum sínum. 

Sjá frétt mbl.is: Áhöfnin kveikti mannskæða elda

Eftir að slökkviliðsstarfsmenn töldu sig hafa slökkt eldinn í skipinu, og hinir eftirlifandi voru kommnir frá borði, blossaði eldur upp aftur. Er það sá hluti málsins sem mörgum þykir grunsamlegur. Er það sérstaklega eitt atriði sem vakið hefur athygli flestra þeirra sem málið hafa rannsakað. Það er stálrör á einum stað í skipinu sem reyndist vera bogið. Varð til þess að olía lak út og eldurinn fékk enn meira eldsneyti. Lögreglan rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að rörið hefði bognað við hitabreytingarnar þegar eldurinn var slökktur. Hefur lögreglan haldið fast í þá kenningu frá árinu 1991. 

Þrír dæmdir fyrir vanrækslu á öryggisreglum

Við rannsókn málsins komu í ljós ýmsir annmarkar á öryggisbúnaði skipsins. Til dæmis skorti brunahurðir, neyðarútgangar voru ekki nægilega merktir, ýmis slökkvibúnaður virkaði illa og brunabjallan var svo máttlítil að hún heyrðist ekki alls staðar. 

Voru þrír menn dæmdir í fangelsi vegna málsins árið 1992 og 1993. Voru það annars vegar starfsmenn félagsins sem átti skipið, og norski skipstjórinn. Dómana hlutu mennirnir fyrir að hafa brotið gegn lögum um öryggi um borð í skipum. Einum hinna dæmdu, Ole B. Hansen, framkvæmdastjóra Scandinavian Star tókst að flýja til Spánar til að komast hjá fangelsisdvölinni.

Strax í kjölfar brunans fóru einkaaðilar, margir hverjir aðstandendur þeirra sem létu lífið, að rannsaka möguleikann á því að um íkveikju hafi verið að ræða. Hefur sá hópur safnað sönnunargögnum allar götur síðan. Um borð í skipinu var danskur maður sem áður hafði verið dæmdur fyrir íkveikju. Lögreglan rannsakaði hvort hann hafi átt þátt í íkveikju um borð í Scandinavian Star, en engin sönnunargögn fundust sem bentu til þess. Lést maðurinn sjálfur í brunanum. 

MS Scandinavian Star í höfninni í Lysekil í Svíþjóð eftir …
MS Scandinavian Star í höfninni í Lysekil í Svíþjóð eftir brunann. Terje Fredh/Sjöhistoriska Museet

Árið 2014 skilaði starfshópur lögreglunnar frá sér skýrslu um málið. Mælti starfshópurinn ekki með því að lögreglan myndi rannsaka málið að nýju, en lögregleglustjórinn í málinu fór gegn skoðun meirihluta nefndarinnar og ákvað að hefja rannsókn að nýju. Ríkislögmaður Noregs studdi þá ákvörðun lögreglustjórans.

Eltu peningaslóðina en allt kom fyrir ekki

Hin nýja rannsókn málsins hefur teygt anga sína víða. Alls er búið að yfirheyra 70 mannsí 13 mismunandi löndum. Búið er að safna inn fjölda afrita af yfirheyrslum, dómsúrskurðum og frásögnum vitna og eftirlifandi. Alls telja málsgögnin um 60 þúsund blaðsíður.

Dagbladet greinir í dag frá því að í síðasta mánuði hafi eftirlifandi frá siglingunni og aðstandendur hinna látnu fengið bréf frá réttargæslumönnum sínum. Þar hafi komið fram að lögreglan hafi ekki getað með rannsókn sinni fundið neinn aðila sem hægt væri að draga til ábyrgðar vegna málsins. 

Sjá heildstæða umfjöllun Verdens gang um málið.

Í bréfinu segir einnig að lögreglan hafi rannsakað til hlítar allar vísbendingar um að bruninn hafi verið tryggingasvindl. Eignarhald skipsins var skoðað, allir samningar um kaup á svipuðum skipum á þessum tíma hafi verið skoðaðir og fyrri eigendur skipsins voru rannsakaðir. Stjórnarformaður félagsins sem átti skipið var yfirheyrður en hann hafði aldrei áður verið yfirheyrður vegna málsins. 

Aðstandendur segja niðurstöðuna niðurlægjandi

„Þetta er niðurlægjandi niðurstaða fyrir þá sem lifðu af brunann og aðstandendur hinna látnu. Þeir trúðu á þessa rannsókn lögreglunnar og töldu að hinir ábyrgu yrðu dregnir til ábyrgðar. Viðbrögð skjólstæðinga minna eru sterk,“ segir Sigurd Klomsæt, réttargæslumaður aðstandendahóps. Klomsæt segir að til greina komi að fara með málið fyrir mannréttindadómstól Evrópu, fari svo að málið verði látið niður falla án þess að einhver verði dreginn til ábyrgðar.

Mike Axdal fer fyrir dönskum samtökum aðstandenda hinna látnu í brunanum. Hann missti sjálfur föður sinn og bróður á skipinu. „Pabbi minn og bróðir voru myrtir af einhverjum á skipinu og nú komast hinir seku undan,“ segir Axdal í samtali við Dagbladet.

Lögreglan vill ekki tjá sig um málið við Dagbladet en segir að kallaður verði saman blaðamannafundur á næstunni þar sem farið verður yfir niðurstöður rannsóknarinnar.

Sjá frétt Dagbladet.

Sjá frétt Politiken.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert