Prinsessan skilur við eiginmann sinn

Märtha Louise og eiginmaður hennar Ari Behn ætla að skilja.
Märtha Louise og eiginmaður hennar Ari Behn ætla að skilja.

Norska prinsessan Märtha Louise og eiginmaður hennar til fjórtán ára Ari Behn ætla að skilja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá norsku konungsfjölskyldunni nú síðdegis.

Parið gifti sig í Nidarosdomen í Þrándheimi þann 24. mai 2002. Saman eiga þau þrjú börn, þau Maud Angelicu, fædda árið 2003, Leah Isadora, fædd 2005 og Emma Tallulah, fædda 2008.

Munu foreldrarnir hafa sameiginlega forsjá með börnunum og munu þau halda áfram í sama skóla og þau eru nú.

Haft er eftir prinsessunni í fréttatilkynningunni að parið hafi „þroskast frá hvoru öðru“ og að þau hafi reynt að bjarga sambandinu í langan tíma. 

„Það er hræðilegt að uppgötva að það er ekkert meira sem við getum gert. Lífið er ekki beinn vegur. Það höfum við Ari fengið að upplifa. Við upplifum það hvað sterkast nú þegar við höfum ákveðið að fara frá hvoru öðru. Við ljúkum hjúskap okkar en verðum áfram bæði foreldrar barnanna okkar,“ segir Märtha Louise í tilkynningunni.

Hún segist finna fyrir sektarkennd yfir því að hún geti ekki haldið sambandinu gangandi áfram og skapað börnunum „sameiginlega heimahöfn.“

„En við teljum okkur geta haldið vináttunni áfram í gegnum þá erfiða tíma sem taka nú við. Við biðjum um svigrúm til að fá að takast á við framhaldið. Börnin þurfa tíma til að fá að melta þessa ákvörðun okkar,“ segir Märtha.

Parið kom síðast opinberlega fram í júnímánuði þegar þau ferðuðust til Þrándheims með konungsfjölskyldunni. Prinsessan hefur engum opinberum skyldum eða heimsóknum að gegna á komandi vikum, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert