Tóku vísindamann af lífi

Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. AFP

Íranskur kjarnorkuvísindamaður sem hefur verið í haldi síðan árið 2010 hefur verið tekinn af lífi. Þetta staðfestir fjölskylda mannsins við BBC.

Móðir Shahrams Amiris segir að komið hafi verið með lík sonar hennar til heimabæjarins en greinileg merki eftir reipi voru á hálsi hans sem sýni að hann hafi verið hengdur. Fjölskyldan hefur jarðað Amiri sem hafði verið haldið á leynilegum stað eftir að hafa komið til Írans frá Bandaríkjunum. Amiri sagði sjálfur að honum hafi verið rænt af leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Amiri, sem fæddist árið 1977, hvarf í pílagrímaför til Mekka árið 2009 en birtist óvænt í pakistanska sendiráðinu í Washington ári síðar. Í myndskeiði sem tekið var upp í Bandaríkjunum segir hann að þeir hafi farið með hann í hús sem hann vissi ekki hvar væri. Þar hafi deyfilyfi verið sprautað í hann. Í öðru myndskeiði sagðist hann hafa flúið úr haldi Bandaríkjamanna. Hann sneri aftur til Teheran árið 2010 og var fagnað eins og þjóðhetju.

Bandarískir embættismenn sögðu á þeim tíma við BBC að Amiri hafi flúið land af sjálfsdáðum og veitt bandarískum yfirvöldum gagnlegar upplýsingar. Síðar fréttist að hann hafi hlotið þungan fangelsisdóm við komuna til Teheran. Það fékkst staðfest af fjölskyldu hans sem óttaðist um líf hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert