Börnin sem foreldrarnir myrtu

Ljósmynd/Norden.org

Hann lá á sófa á heimili sínu í Danmörku á nærbuxunum einum fata þegar lögreglu bar að garði. Maðurinn hafði greinilega innbyrt nokkurt magn af áfengi. Það blæddi úr úlnliðum hans, hann hafði gert tilraun til að svipta sig lífi. Það var komið fram yfir hádegi. Um nóttina, skömmu eftir miðnætti, myrti hann átta ára gamla dóttur sína, Louise.

Þrjú börn hafa verið myrt af foreldrum sínum í landinu á þessu ári samkvæmt samantekt Berlingske Tidende. Fyrr í sumar fann móðir lík hálfs árs gamals sonar síns í íbúð föður hans. Maðurinn fannst látinn sama dag eftir að hafa orðið fyrir lest. Líklegt þykir að hann hafi svipt sig lífi. Fyrr í sumar lést níu ára stúlka í Danmörku af áverkum sem móðir hennar veitti henni með hnífi þar sem hún lá sofandi á heimili þeirra.

Frétt mbl.is: Stúlkan fannst látin í baðkarinu

Í fyrra féllu tvö börn í Danmörku, tveggja ára gömul stúlka og fimm ára gamall drengur, fyrir hendi foreldra sinna. Árið 2011 myrti kona á fimmtugsaldri sjö ára dóttur sína og rúmlega fertugur maður myrti tvö börn sín. Árið 2010 létu fjögur börn lífið af völdum foreldra sinna. Í næstum öllum málunum reyndi foreldrið að svipta sig lífi eftir á.

Lá blóðug á bakinu 

Það var þriðjudagur og Louise átti að snúa aftur heim til móður sinnar þennan dag. Foreldrar hennar skildu fyrir skömmu og hafa síðan deilt um forræði yfir henni. Stúlkan var eina barnið hennar en maðurinn á nokkur börn frá fyrri samböndum.

Faðirinn hringdi í móðurina um hádegi og sagðist hafa myrt dóttur þeirra. Henni var verulega brugðið og hringdi þegar í stað í föður sinn sem hafði samband við neyðarlínuna. Aðkoman var ljót þegar lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Blóð blasti við í anddyrinu þegar inn var komið og blóðslóðin teygði sig upp stigann. Baðherbergishurðin var þakin blóði og lík stúlkunnar fannst í baðkarinu.

Ljóst var að eitthvað hafði gengið á í herberginu. Setan hafði verið rifin af salerninu og fann lögregla blóðugan hníf og piparsprey í herberginu. Í munnvikum stúlkunnar var froða en talið er að faðir hennar hafi drekkt henni eða kæft. Á gólfinu fannst einnig áfengi, glas og fartölva. Stúlkan hafði verið látin í tíu klukkustundir hið minnsta þegar hún fannst. Margt þykir benda til þess að líkið hafi verið fært eftir andlátið.

Leiðir foreldranna skildi um miðjan júlí á þessu ári en þá fluttu mæðgurnar út og leituðu skjóls í athvarfi vegna heimilisofbeldis. Móðirin segir að faðir stúlkunnar hafi beitt þær andlegu og líkamlegu ofbeldi. Eftir dvölina þar fluttu mæðgurnar til foreldra móðurinnar. Maðurinn bjó áfram í húsinu sem parið keypti saman árið 2007.

Nágranni parsins og foreldri vinar stúlkunnar segir að skilnaðurinn hafi greinilega tekið á manninn. Hann segir manninn skemmtilegan en geti verið illkvittinn þegar hann hefur drukkið áfengi. Parið sé mjög skemmtilegt og gaman hafi verið að verja tíma með þeim.

Hélt syninum þéttingsfast að sér í garðinum

Blóðug spor blöstu við honum þegar hann flýtti sér inn í húsið um miðjan júní. Hann hafði farið út að ganga með hundinn en eftir að kona hans hringdi hljóp hann heim. Hún sagðist elska hann og hlakka til að fá hann heim en var ekki viss um að hún og dóttir þeirra myndu hafa það af.

Maðurinn fann sambýliskonu sína í eldhúsinu, blóðuga eftir tilraun til sjálfsvígs. Því næst fann hann dóttur þeirra alblóðuga í herbergi sínu en móðir hennar hafi stungið hana með hnífi í hálsinn. Þriggja ára sonur þeirra var óhultur í herbergi sínu. Ákvað maðurinn að fara með hann út úr húsinu og bjarga honum þannig. Þegar sjúkraflutningamenn bar að garði hélt hann þéttingsfast utan um drenginn í garðinum.

Nokkrum dögum fyrir harmleikinn fór konan á sjúkrahús í nágrenninu og vildi leggjast inn vegna andlegra veikinda sem hún hafði glímt við um tíma. Fyrst var hún send í burtu þar sem hún var ekki með læknisvottorð en að lokum fékk hún að dvelja á sjúkrahúsinu um tíma. Hún leitaði aðstoðar vegna „ljótra hugsana“.

Mánuðina á undan hafði konan glímt við þunglyndi. Í mars á þessu ári var hún greind með geðrof en var útskrifuð af sjúkrahúsi degi síðar þar sem talið var að ekki væri hægt að gera meira fyrir hana. Þess í stað var henni útvegaður læknir en hún átti ekki tíma hjá honum fyrr en 21. júní, nokkrum dögum eftir að hún myrti dóttur sína.

Hún stakk dóttur sína í hálsinn. Yngri bróðir stúlkunnar lá sofandi í húsinu en slasaðist ekki. Ekkert þykir benda til þess að móðirin hafi einnig ætlað að myrða drenginn. Konan hringdi í neyðarlínuna eftir að hafa stungið stúlkuna. Það gerði faðir hennar einnig þegar hann kom heim. Stúlkan var enn með meðvitund þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn en lést síðar af áverkunum sem móðir hennar veitti henni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert