Aðkoman skelfileg á sjúkrahúsinu

Sjúkrahúsið er eins og vígvöllur eftir árásina.
Sjúkrahúsið er eins og vígvöllur eftir árásina. AFP

Að minnsta kosti 45 létust og tugir særðust þegar sprengja sprakk á sjúkrahúsi í borginni Quetta í Balochistan-héraði í Pakistan. Fjölmargir lögfræðingar og blaðamenn voru á sjúkrahúsinu, en þangað hafði formaður lögmannasamtaka héraðsins, Bilal Anwar Kasi, verið fluttur eftir skotárás fyrr í morgun. Kasi var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahúsið eftir árásina og voru margir félagar hans komnir þangað til að syrgja hann.

AFP

Yfirvöld óttast að tala látinna eigi eftir að hækka en um 200 manns komu á sjúkrahúsið eftir að það fréttist að Kasi hefði verið skotinn til bana af tveimur byssumönnum við heimili sitt.

Myndskeið af vettvangi sýna fólk liggjandi eins og hráviði, blóð rennur í stríðum straumum og glerbrot út um allt. Margir hinna látnu eru klæddir í svört jakkaföt og bindi sem bendir til þess að þeir hafi komið á sjúkrahúsið til þess að syrgja lögmanninn. Heilbrigðisráðherra Balochistan-héraðs, Rehmat Saleh Baloch, segir að yfir fimmtíu hafi særst í sprengjutilræðinu og að tala látinna eigi eftir að hækka.

AFP

Ekki næst farsímasamband við þá sem eru staddir á sjúkrahúsinu og nágrenni en yfirvöld í Pakistan láta yfirleitt loka fyrir símasamband þegar árásir sem þessar eru gerðar. Ekki er vitað hverjir stóðu á bak við árásirnar í morgun.

Frétt mbl.is: Tugir látnir í sprengjutilræði í Pakistan

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert