Stúlkurnar ganga kaupum og sölum

Konurnar eru geymdar í flóttamannamiðstöðvum sem eru í huga glæpamannanna …
Konurnar eru geymdar í flóttamannamiðstöðvum sem eru í huga glæpamannanna eins konar vöruhús þar sem þær eru geymdar tímabundið. AFP

Af þeim nígerísku konum sem hafa komið að landi á Ítalíu með bátum smyglara frá Líbýu munu 80% enda í vændi í Evrópu, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, IOM.

Um 3.600 nígerískar konur komu með bátum til Ítalíu á fyrri hluta ársins en það eru tæplega tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Varar IOM við því að smyglarar notfæri sér flóttamannamiðstöðvar sem geymslustað fyrir konur sem er síðan safnað saman og þær neyddar í vændi á Ítalíu og víðar í Evrópu.

80% þeirra nígerísku kvenna sem koma með smyglbátum frá Líbýu …
80% þeirra nígerísku kvenna sem koma með smyglbátum frá Líbýu eru seldar í vændi á Ítalíu og í öðrum löndum Evrópu. AFP

Guardian hefur eftir Simonu Moscarelli, sérfræðingi í mansali flóttafólks hjá IOM, að aukningin á milli ára sé sú mesta sem verið hefur undanfarinn áratug. Því miður bendi allt til þess að meirihluti, eða rúmlega 80% þessara kvenna, séu vísvitandi fluttar til Evrópu í kynferðislegum tilgangi. Þar eru þær seldar í vændi. Á sama tíma verði stúlkurnar alltaf yngri og yngri sem glæpamennirnir smygla inn til Evrópu frá Nígeríu.

Hún segir varhugavert að setja þessar konur í sömu búðir og aðra flóttamenn því þær hverfi þaðan. Yfirvöld geri sér ekki grein fyrir eðli og um leið krafti sem býr í smygli sem þessu. Í síðustu viku hurfu til að mynda sex stúlkur úr flóttamannamiðstöð á Sikiley. Þær voru einfaldlega sóttar á bíl og ekið með þær á brott.

Konurnar eru margar hverjar stórskuldugar við komuna til Evrópu þar …
Konurnar eru margar hverjar stórskuldugar við komuna til Evrópu þar sem þær greiða fleiri milljónir króna fyrir að komast þangað. AFP

 Salvatore Vella, aðstoðarsaksóknari í Agrigento á Sikiley, leiddi rannsókn á starfsemi nígerískra mansalshringja á Ítalíu 2014. Hann segir að það verði sífellt algengara að flóttamannamiðstöðvar séu notaðar sem viðkomustaður kvenna sem selja á í vændi.

Konurnar fái símanúmer í hendurnar þegar þær yfirgefa Nígeríu sem þær hringja í þegar þær koma til Ítalíu. Eftir það koma glæpamennirnir og sækja þær. „Ekki flóknara en að fara út í matvörubúð. Það er þannig sem komið er fram við þessar konur. Þær eru hlutur í vöruskiptum, kaupum, misnotkun og endursölu. Flóttamannamiðstöðvarnar gegna hlutverki vöruhúss þar sem þessar stúlkur eru geymdar tímabundið,“ segir Vella við Guardian.

Hann segir að glæpamennirnir bíði oft eftir því að konurnar fái dvalarleyfi eða stöðu flóttamanns og síðan eru þær sóttar. Margar þeirra koma til Ítalíu með skuld upp á 40 þúsund pund, 6,3 milljónir króna, á bakinu fyrir ferðalaginu og er ætlast til þess að þær greiði skuld sína að fullu.

Stúlkurnar verða alltaf yngri og yngri sem eru seldar í …
Stúlkurnar verða alltaf yngri og yngri sem eru seldar í vændi í Evrópu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert