Óttast að eiturefni komi undan jökli

Bandaríkjaher reisti Camp Century undir yfirborði Grænlandsjökuls árið 1959.
Bandaríkjaher reisti Camp Century undir yfirborði Grænlandsjökuls árið 1959. ljósmynd/Bandaríkjaher

Þegar Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina Camp Century sem grafin var í Grænlandsjökul gerði hann ráð fyrir að úrgangurinn sem þar var skilinn eftir myndi hvíla í ísnum til eilífðar. Bráðnun jökulsins vekur hins vegar ótta vísindamanna við að eitraður úrgangur losni út í umhverfið.

Century-herstöðin var byggð árið 1959, um 240 kílómetra austur af Thule, og náði allt að þrjátíu metra niður í ísinn. Herstöðin var sögð rannsóknarmiðstöð en hún var hins vegar einnig notuð sem tilraunavettvangur fyrir kjarnaodda sem beina átti að Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Stöðin sjálf var knúin með kjarnaofni, að því er kemur fram í umfjöllun bandaríska ríkisútvarpsins NPR.

Verkfræðingar hersins grófu röð ganga í ísinn þar sem koma átti kjarnaoddunum fyrir. Herinn gerði sér hins vegar fljótlega grein fyrir því að göngin myndu ekki halda lengi vegna hreyfingar íshellunnar. Herstöðin var því yfirgefin árið 1967 og hvarf dýpra í ís og fönn með tíð og tíma.

Geislavirkt vatn, olía, PCB-efni og úrgangur

Mikil bráðnun hefur hins vegar átt sér stað á Grænlandsjökli á undanförnum áratugum vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Áætlað er að jökullinn hafi misst um 260 milljarða tonna af ís á hverju ári frá 2007 til 2011. Því velta sumir vísindamenn nú vöngum yfir því hvort Camp Century gæti komið undan jöklinum.

William Colgan, jöklafræðingur við York-háskóla í Toronto í Kanada, og félagar hans notuðu loftslagslíkön til að áætla hversu hratt það gæti gerst. Grein um rannsóknir þeirra birtist nýlega í Geophysical Research Letters. Samkvæmt svartsýnustu spám um hnattræna hlýnun og bráðnun Grænlandsjökuls gæti herstöðin komið undan ísnum strax í kringum aldamótin.

Þetta er áhyggjuefni því þó að herinn hafi tekið kjarnaofninn með sér þá var geislavirkt kælivatn skilið eftir ásamt dísilolíu, PCB-efnum og úrgangi úr mönnum. Meira aðsteðjandi hætta er hins vegar á því að bráðnunarvatn renni í gegnum sprungur í ísnum, komist í snertingu við eiturefnin í Camp Century og renni svo eftir neðanjarðarfarvegum út í hafið.

Breytingarnar geta valdið óvæntri losun mengunarvalda

PCB-efnin eru sérstakt áhyggjuefni því þau safnast saman í kuldanum og geta komist upp alla fæðukeðjuna ef þau komast inn í hana.

„Þau endast að eilífu, þau brotna ekki niður,“ segir Colgan sem varar við því að þeim skoli út í hafið þegar bráðnunarvatn kemst að þeim.

Daniel Hirsch, framkvæmdastjóri umhverfis- og kjarnorkustefnuverkefnis Kaliforníuháskóla, segir rannsóknina varpa ljósi á hvernig loftslagsbreytingar geta leitt til óvæntrar losunar á eitruðum og geislavirkum úrgangi.

„Staðir sem eru frosnir í dag verða kannski ekki áfram frosnir á morgun; staðir sem eru tiltölulega þurrir núna verða það ekki endilega á þeirri hálfri milljón ára sem geislavirk efni eru hættuleg,“ segir Hirsch við Scientific American.

Sprungur myndast í Grænlandsjökli þegar hann bráðnar. Bráðnunarvatn gæti runnið …
Sprungur myndast í Grænlandsjökli þegar hann bráðnar. Bráðnunarvatn gæti runnið í gegnum þær og komist í tæri við eiturefni í niðurgrafinni herstöðinni. mbl.is/Rax

Það vekur aftur upp spurningar um hver ber ábyrgð á því að þrífa upp úrgang eins og þann sem er til staðar í Camp Century. Bandaríkjamenn byggðu stöðina með leyfi frá dönskum stjórnvöldum en í dag hafa Grænlendingar heimastjórn. Colgan segir óvíst hver „á“ úrganginn þar lagalega séð.

„Loftslagsbreytingar vekja upp margar spurningar um hver ber ábyrgð á hverju. Þetta er ókannað svæði,“ segir Jessica Green, sérfræðingur í umhverfisstefnu við New York-háskóla við NPR.

Umfjöllun NPR um Camp Century

Umfjöllun Scientific American

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert