Flokkurinn hætti að eyða fé í Trump

Donald Trump forsetaframbjóðandi repúblikana á ekki vísan stuðning allra flokksmanna. …
Donald Trump forsetaframbjóðandi repúblikana á ekki vísan stuðning allra flokksmanna. Mikilsmetnir repúblikanar hvetja nú flokkinn til að hætta að veita framboði Trump fjárstuðning. AFP

Rúmlega 70 áhrifamiklir einstaklingar í Repúblikanaflokknum hafa ritað nafn sitt við bréf þar sem þeir hvetja flokkinn til að hætta að eyða fé í kosningabaráttu Donalds Trumps. Fénu væri betur varið í kosningabaráttu vegna þingkosninganna í nóvember.

„Við teljum að sundurlyndisandi, ófyrirleitni, vanhæfni og fordæmalausar óvinsældir Donald Trump feli í sér þá áhættu að Demókrataflokkurinn hafi afgerandi sigur í þessum kosningum,“ segir í drögum að bréfinu sem ætlað er formanni landsnefndar Repúblikanaflokksins, Reince Priebus.

Dagblaðið Politico hefur eintak af bréfinu, en þar er kallað eftir „tafarlausum breytingum“ á styrkveitingum flokksins og að fjármunum verði eytt í kosningabaráttu vegna þingkosninganna, til að styðja við þá frambjóðendur flokksins sem þegar hafi borið skaða af framboði Trumps.

Hefur sýnt hættulega einræðistilburði

„Þetta ætti ekki að vera erfið ákvörðun, þar sem möguleikar Donalds Trumps á að verða kjörinn forseti fara minnkandi með degi hverjum,“ segir í bréfinu. Trump hafi gert milljónir kjósenda allra flokka afhuga sér með orðræðu sinni og gjörðum. „Þessi nýlegu hneykslismál hafa tengst kosningabaráttu  hans sem byggist á reiði og útilokun. Hann hefur hætt og móðgað milljónir kjósenda, m.a. fatlaða, konur, múslima, innflytjendur og minnihlutahópa.“

Politico segir að í bréfinu komi einnig fram að Trump hafi sýnt hættulega einræðistilburði, „m.a. með hótunum um að banna heilu trúarbrögðunum inngöngu í landið, að skipa hernum að brjóta lög með því að pynta fanga, að drepa fjölskyldur grunaðra hryðjuverkamanna, nota gagnagrunn til að fylgjast með löghlýðnum múslimum og að nota forsetatilskipanir til að koma í gegn öðrum ólöglegum og óstjórnarskrárvörðum málum.

Fjöldi mikilsmetinna repúblikana hefur þegar undirritað bréfið, en að sögn Politico tók það að ganga milli valinna einstaklinga í flokknum í þessari viku og er gert ráð fyrir að það verði sent Priebus í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert