Gera ráð fyrir „gagnkynhneigðu“ kynlífi

Þegar tryggingafélagið neitaði Erin og Marianne um að standa straum …
Þegar tryggingafélagið neitaði Erin og Marianne um að standa straum af kostnaði vegna frjósemismeðferða, vísaði það til reglugerðar sem gerir ráð fyrir að fólk stundi „gagnkynhneigt“ kynlíf.

Fjórar lesbíur hafa höfðað mál á hendur ráðherra banka- og tryggingamála í New Jersey í Bandaríkjunum, vegna tryggingareglugerðar sem kveður á um að konur undir 35 ára aldri sýni fram á ófrjósemi með því að stunda óvarin kynmök í tvö ár.

Meðal kvennanna eru Erin og Marianne Krupa. Fyrir fimm árum ákváðu þær að eignast barn en komust að því í kjölfari að Erin, sem hugðist ganga með barnið, þjáðist af legslímuflakki og þyrfti aðstoð við að verða þunguð.

Tryggingafélag Krupa, Horizon Blue Cross Blue Shield, neitaði hins vegar að greiða fyrir frjósemismeðferðir parsins og vísaði til áðurnefndrar reglugerðar.

Erin og Marianna Krupa, ásamt tveimur öðrum konum, segja yfirvöld mismuna þeim á grundvelli kynhneigðar, en eðli málsins samkvæmt geta þær ekki sýnt fram á ófrjósemi með því að stunda óvarið kynlíf að hætti gagnkynhneigðra.

Þetta þýðir að þær eru tilneyddar til að standa sjálfar straum af öllum kostnaði vegna frjósemismeðferða.

Grace Cretcher, lögmaður Erin og Marianna Krupa, segir ekki nóg með að reynsla kvennanna í barneignaferlinu hafi reynst erfið, heldur hafi hún tekið fjárhagslegan toll og látið skjólstæðingum sínum líða eins og annars flokks borgurum.

Þar sem konurnar fjórar hafa allar neyðst til að verja fé úr eigin vasa til að fjármagna frjósemismeðferðir, hafa þær farið fram á skaðabætur.

Erin og Marianne Krupa hafa greitt fyrir frjósemisaðgerðir úr eigin …
Erin og Marianne Krupa hafa greitt fyrir frjósemisaðgerðir úr eigin vasa, en óttast að tími þeirra til barneigna sé að renna út. mbl.is/Golli

Fimmtán ríki Bandaríkjanna, þeirra á meðal New Jersey, skylda tryggingafyrirtæki til að tryggja fólk vegna ófrjósemi. Í Kaliforníu og Maryland hefur orðalag viðkomandi reglugerða verið uppfært til að tryggja fólki tryggingar óháð kynhneigð.

Tvö lagafrumvörp hafa verið lögð fyrir þingið í New Jersey þar sem lagt er til að ófrjósemi verði skilgreind upp á nýtt, nánar tiltekið með þeim hætti að læknir geti úrskurðað um frjósemi, en bæði hafa dagað uppi í nefnd.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert